Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:32:57 (2507)

2002-12-11 16:32:57# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:32]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Á síðasta vori samþykkti Alþingi till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Þessi tillaga er býsna snaggaraleg. Hún kemst fyrir á einu A-4 blaði og er fyrst og fremst almenn viljayfirlýsing um byggðamál eða almenn viljayfirlýsing um að aðstoða byggðarlög, treysta búsetuskilyrði o.s.frv. Fátt er þar um útfærslur og lítið um hugmyndir.

Hins vegar vísa ýmsir til byggðaáætlunar og í þeim hópi er hæstv. iðnrh., vísa til byggðaáætlunar ríkisstjórnarinnar þegar verið er að fylgja málum eftir. Satt best að segja er mér ekki alveg ljóst hvað menn eru þá að tala um, í hvað verið er að vísa vegna þess að ekki er það þessi tillaga sem Alþingi samþykkti. Það er mér ljóst.

Í athugasemdum við það plagg sem upphaflega var lagt fram hér voru hugmyndir reifaðar, þ.e. í svokölluðum athugasemdum. Í meirihlutaáliti iðnn. voru líka reifaðar ýmsar hugmyndir. Á sínum tíma birtist það okkur í stjórnarandstöðunni þannig að menn hefðu lent hér í ákveðnum vandræðagangi með málið vegna þess að m.a. þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum voru óánægðir og lýstu yfir mikilli andstöðu með þær hugmyndir sem fyrir lágu í plagginu. Eigi að síður, herra forseti, virðist einhvers staðar vera til einhver byggðaáætlun eða eitthvað sem ráðherra getur sótt í þegar verið er að fjalla um þessi mál. Mér leikur þess vegna hugur á að vita, og ég veit að ég er ekki ein um það, hvaða áætlanir eru til og hvaða vinna hefur farið fram á grundvelli þessarar þál. um stefnu í byggðamálum sem Alþingi samþykkti í vor. Eitthvað hlýtur að vera til einhvers staðar. Það væri áhugavert fyrir okkur og fyrir þingheim að vita hvaða áætlanir eru til, hvaða vinna hafi farið fram og hvert hugmyndir eru þá sóttar. Koma þær úr athugasemdum við upphaflega frv., úr meirihlutaáliti iðnn. eða hvaðan eru þær runnar?