Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:36:13 (2508)

2002-12-11 16:36:13# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Tillögur um aðgerðir í þál. um byggðamál voru settar fram í 22 liðum. Flest ráðuneyti komu að framkvæmd áætlunarinnar og er ábyrgð einstakra liða dreift milli ráðuneyta og Byggðastofnunar. Til að tryggja sem best framgang samþykktrar byggðaáætlunar var tillaga um að skipuð yrði verkefnisstjórn sem hefði yfirumsjón með framkvæmd hennar, verkefnisstjórnin yrði skipuð fulltrúum allra þeirra ráðuneyta sem áætlunin snertir en formaður hennar yrði skipaður af iðnrh. Viðkomandi ráðuneyti hafa nú tilnefnt fulltrúa sína í verkefnisstjórnina og mun hún hefja störf á næstu dögum.

Mig langar til að koma inn á nokkur atriði sem varða iðn.- og viðskrn. Ég get ekki svarað fyrir önnur ráðuneyti. Ég nefni fyrst nýsköpunarmiðstöð á Akureyri. Síðastliðinn föstudag var formlega opnuð nýsköpunarmiðstöð á Akureyri með þremur starfsmönnum. Nýsköpunarmiðstöðin er hluti af Impru og er meginmarkmið hennar að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda. Á næsta ári er áætlað að tveir starfsmenn verði ráðnir til viðbótar. Ljóst er að það er mikill styrkur fyrir nýsköpunarmiðstöðina á Akureyri að tengja Impru beint og tryggja þar með milliliðalausan tilflutning á þeirri dýrmætu reynslu sem Impra býr yfir. Segja má að hornsteinn byggðaáætlunarinnar sé stofnun nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem á að þjóna allri landsbyggðinni.

Ég nefni aukna samvinnu opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífs. Um er að ræða að auka samvinnu opinberra sjóða sem veita lán eða fjárhagslegan stuðning til nýsköpunar og uppbyggingar atvinnulífsins. Sú vinna hefur þegar verið sett í gang. Haldinn hefur verið einn fundur og er annar fundur áætlaður á næstu dögum.

Ég nefni athugun á búsetuskilyrðum fólks og athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna. Þessir tveir þættir hafa verið sameinaðir enda nátengdir. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ásamt Byggðarannsóknastofnun hefur verið falið það í sameiningu að vinna að þessu verkefni. Búið er að leggja mikla vinnu í verkið frá því í sumar og er áætlað að skýrsla liggi fyrir í málinu nú fyrir jólin.

Ég nefni byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Búið er að skipa fimm manna verkefnisstjórn um málið undir forustu Sigmundar Ernis Rúnarssonar ritstjóra og hefur stjórnin þegar hafið störf. Verkefnisstjórnin mun skila greinargerð um framvindu verksins til ráðherra tvisvar á ári. Að öðru leyti verði miðað við að verkefninu ljúki eigi síðar en við lok ársins 2004.

Ég nefni rafrænt samfélag. Unnið hefur verið ötullega að málinu en það felst í því að bjóða tveimur til þremur framsæknum byggðarlögum framlag úr ríkissjóði á móti eigin framlagi til að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum sem hafa að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræði. Undirbúningsfasanum er nær lokið og kynning fyrir sveitarfélögum stendur yfir. Gert er ráð fyrir að val á byggðarlögum fari fram fljótlega á næsta ári.

Ég nefni alþjóðlegt samstarf í byggðamálum. Ísland er nú orðinn fullgildur þátttakandi í Northern Periphery verkefninu og hefur ráðuneytið skipað tvo fulltrúa Íslands í framkvæmdanefnd verkefnisins.

Þá hefur ráðuneytið í undirbúningi að vinna að hugmyndum um samstarfsverkefni með öðrum ráðuneytum sem varða byggðamál og byggðaþróun. Fleira mætti nefna. Í ræðu sinni áðan fannst mér hv. þm. vera óþarflega neikvæð í málflutningi sínum og vildi lítið gera úr þessari byggðaáætlun að mér fannst. Það finnst mér alveg óþarfi því að þarna eru einmitt margar hugmyndir --- hún sagði að lítið væri um hugmyndir --- sem vissulega hafa ekki lagagildi. En þær eru á blaði og þær eru hluti af byggðaáætlun Alþingis og ríkisstjórnar og það skiptir verulega miklu máli. Þegar hv. þm. áttar sig ekki á því í hvað sé verið að vísa þegar talað er um byggðaáætlunina þá er það rétt sem kemur fram hjá henni að sú ályktun sem í raun var samþykkt hér á hv. Alþingi er ekki í mörgum orðum eða mjög flókin. Hins vegar liggur mjög margt þar til grundvallar sem gerir það að verkum að ég er stolt yfir þessu verki.