Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:03:23 (2513)

2002-12-11 18:03:23# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem er 444. mál þingsins á þskj. 624.

Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta ákvæði um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar sem eiga rætur að rekja til breytinga á samningi um sauðfjárframleiðslu sem undirritaður var 11. mars 2000 á grundvelli 30. gr. laga nr. 99/1993 milli landbrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands. Á síðasta löggjafarþingi Alþingis 2001--2002 voru lögfestar nokkrar breytingar á lögum nr. 99/1993 sem byggðar voru á áðurnefndum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða. M.a. voru þar lögfest ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og álagsgreiðslur sem greiðast fyrir slíka framleiðslu frá og með 1. janúar 2004. Einnig voru með þessum sömu lögum lögfest ákvæði um að beingreiðslur til sauðfjárframleiðenda skyldu lækka um nánar tilgreind hlutföll árlega á árunum 2003--2007. Þá voru í lögunum nr. 101/2002 ákvæði um að álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skyldu m.a. greiðast af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um.

Í frv. til laga nr. 101/2002, eins og það var lagt fyrir Alþingi, var gert ráð fyrir að gæðastýrð sauðfjárframleiðsla og álagsgreiðslur fyrir slíka framleiðslu yrðu teknar upp 1. janúar 2003. Við meðferð frv. á Alþingi var ákveðið að fresta gildistöku ákvæða um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu um eitt ár, þ.e. til 1. janúar 2004. Beingreiðslur skyldu þó lækka um áður ákveðin hlutföll þegar 1. janúar 2003 en þeim fjármunum sem beingreiðslur lækkuðu um skyldi varið til að greiða álag á allt framleitt dilkakjöt.

Þá var sú ákvörðun tekin í meðförum Alþingis á frv. að samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 skyldi tekinn til endurskoðunar árið 2002. Þeirri endurskoðun er nú lokið og hefur viðauki við fyrrgreindan samning um framleiðslu sauðfjárafurða sem hefur að geyma breytingar frá fyrri samningi með sama efni og greinir í frv. þessu þegar verið undirritaður.

Þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 99/1993 með áðurnefndum lögum nr. 101/2002 voru í fullri sátt og með stuðningi Bændasamtaka Íslands og Landssambands sauðfjárbænda. Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda síðastliðið sumar var hins vegar samþykkt ályktun um að nauðsynlegt væri að gera nánar tilgreindar breytingar á samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000. Við þá endurskoðun á samningnum sem frv. þetta byggir á hefur verið tekið fullt tillit til þessarar ályktunar Landssamtaka sauðfjárbænda. Í frv. eru því lagðar til eftirfarandi breytingar:

Ákvæði 29. gr. laganna er breytt á þann veg að sauðfjárframleiðendur geti einungis komist hjá útflutningsskyldu með því að fækka fé en ekki með því að kaupa sér greiðslumark. Öllum sauðfjárframleiðendum, eða öllu heldur sláturleyfishöfum sem kaupa kjöt af framleiðendum, er skylt að taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandinn tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Þegar ákvæðið um undanþágur frá útflutningsskyldu varð fyrst til á árinu 1995 var megintilgangur þeirra sá að stuðla að því að bændur fækkuðu fé. Í framkvæmd hafa einstakir bændur hins vegar farið þá leið að kaupa sér greiðslumark án þess að fækka fé til þess að ná þessu hlutfalli, þ.e. 0,7 kindur á hvert ærgildi greiðslumarks. Í frv. þessu er miðað við að undanþegnir útflutningi geti einungis verið þeir sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar ær eða kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks.

Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein sem felur í sér að útflutningsuppgjör eða útflutningsgjald, sem sláturleyfishöfum ber að greiða ef þeir flytja ekki út lögboðinn hluta afurða sinna eða semja ekki við aðra sláturleyfishafa um að flytja út þann hluta, verður tryggt með lögveði í framleiðslunni sem ásamt dráttarvöxtum gengur í tvö ár frá gjalddaga á undan öðrum skuldbindingum framleiðandans. Að tveimur árum liðnum fellur lögveðið niður. Ákvæði þetta er nauðsynlegt til að tryggja að unnt verði að innheimta útflutningsgjaldið, t.d. ef sláturleyfishafi verður gjaldþrota, vegna þess að ef það er ekki gert leiðir það til þess að útflutningsskyldan kemur þá með meiri þunga niður á öðrum aðilum sem háðir eru henni.

Breytt er ákvæði 39. gr. laganna og gert ráð fyrir að beingreiðslur lækki ekki fyrr en í janúar 2004 en samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að beingreiðslur lækki í janúar 2003. Einnig er gert ráð fyrir í frv. að beingreiðslur lækki minna en áður hefur verið ákveðið samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir samkvæmt gildandi lögum að þeir fjármunir sem beingreiðslur lækka um á árinu 2003 renni til álags á framleitt dilkakjöt samanber S-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum en þar sem frv. gerir ráð fyrir að beingreiðslur lækki ekkert á árinu 2004 er miðað við það í frv. að ekki verði um að ræða álagsgreiðslur á framleitt dilkakjöt. Beingreiðslur munu áfram greiðast greiðslumarkshöfum með óbreyttum hætti til ársloka 2003.

Á fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti leyfa mér að vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frv. til laga um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara, sem miðar að því að koma til móts við eindreginn vilja Bændasamtaka Íslands og Landssambands sauðfjárbænda. Einnig er frv. ætlað að stuðla að því að framkvæmd laganna verði í samræmi við tilgang þeirra. Ég tel að ef þetta frv. verður að lögum muni það leiða til réttlátari niðurstöðu fyrir alla hlutaðeigandi aðila en sú framkvæmd sem gildandi lög gera ráð fyrir. Það er því von mín og trú að frv. þetta muni hafa jákvæð áhrif og verða til góðs fyrir sauðfjárframleiðsluna hér á landi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.