2002-12-12 10:36:49# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. fitjar hér upp á er að sjálfsögðu ekki nýtt. Auðvitað hefur það verið svo og legið fyrir í mörg ár og áratugi að það hafa byggst upp mismunandi réttindakerfi á vettvangi opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar almenna vinnumarkaðarins.

Eitt stærsta misréttið eða misræmið í þeim efnum til skamms tíma var mismunandi fæðingarorlofsréttur sem núverandi ríkisstjórn breytti, ekki síst að mínu undirlagi, fyrir tveimur árum og jafnaði réttindi, ekki bara á milli karla og kvenna heldur einnig milli opinberra starfsmanna og annarra. Þetta réttindakerfi sem menn búa við hefur verið að þróast í tímans rás og það hefur þróast ýmist með samningum eða löggjöf.

Það sem þingmaðurinn vitnar til og gerir að aðalefni ræðu sinnar er sú yfirlýsing sem ég gaf fyrir ári síðan í tengslum við samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ég ætla að leyfa mér að lesa þessa yfirlýsingu því að það var helst að heyra á þingmanninum, og reyndar sumum þeirra sem hafa verið að álykta um þetta mál úti um borg og bí, að þeir hafi alls ekki lesið yfirlýsinguna. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli fulltrúa ASÍ og fjármálaráðuneytisins vegna tiltekinna vandamála sem tengjast mismunandi kjörum starfsmanna í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna og aðildarfélaga ASÍ. Af hálfu ráðuneytisins er fullur vilji til þess að halda þessum viðræðum áfram og freista þess að ná ásættanlegri niðurstöðu. Í ljósi fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er mikilvægt að ná frambúðarlausn í þessum málum í samráði við Alþýðusamband Íslands.``

Þetta er yfirlýsingin, herra forseti. Í henni er ekki loforð um tiltekna niðurstöðu eins og þingmaðurinn hélt fram og eins og ýmis verkalýðsfélög hafa haldið fram og sent mér yfirlýsingar, fordæmingar og formælingar út af. Í henni er fyrirheit um að halda viðræðum áfram og freista þess að ná ásættanlegri niðurstöðu. Fyrir hverja? Fyrir báða aðila, að sjálfsögðu. Og ég hafna því algjörlega og vísa því á bug þegar mér er brigslað um svik og að hafa ekki staðið við gefin loforð. Það er af og frá. Fjmrn. hefur í þessum viðræðum lýst því yfir að það sé fullur vilji til þess og einfalt mál að samræma t.d. veikinda- og slysaréttindi og taka þá jafnframt til athugunar mismunandi fyrirkomulag um sjúkrasjóði hjá þessum aðilum. En stóra málið af hálfu Alþýðusambandsins hefur verið að það ætti skilyrðislaust að fallast á að greitt yrði með sama hætti í lífeyrissjóði félaga Alþýðusambandsins sem vinna hjá ríkinu og gert er gagnvart opinberum starfsmönnum. Á þetta hefur ekki verið fallist. Þar stendur hnífurinn í kúnni, í þessu eina máli sem er að vísu mjög stórt, fyrirferðarmikið og dýrt. En ekki nóg með það. Ég hygg að þetta mál sé þess eðlis að það sé ekki hægt að leysa það með því einu að fulltrúar ríkisins og Alþýðusambandsins reyni að koma sér saman um breytt fyrirkomulag vegna þess að þetta hefur víðtæk áhrif út um allan hinn almenna vinnumarkað og þyrfti þá að gerast í miklu stærra samhengi en bara hvað varðar þá tiltölulega fáu starfsmenn sem eru innan almennu verkalýðsfélaganna og vinna hjá ríkinu. Þetta bið ég menn um að hafa í huga. Hér er ekkert smámál á ferðinni en hins vegar verða menn líka að hafa í huga varðandi þetta atriði að lífeyrissjóðakerfið á almenna markaðnum er allt öðruvísi uppbyggt en hjá hinu opinbera. Þetta eru tvö ólík kerfi sem geta hins vegar, þegar til lengri tíma er litið, leitt til sömu niðurstöðu þar sem á endanum verða sams konar réttindi. Það er því ekkert hægt að koma hingað og halda því fram að hér sé um að ræða einhver svik af minni hálfu vegna þessarar yfirlýsingar og ég ráðlegg þeim sem því halda fram að lesa efni yfirlýsingarinnar og kynna sér bakgrunninn í þessum málum.

Menn gera sér grein fyrir því að það hafa verið landamæraerjur milli stéttarfélaga um það hvort tilteknir starfsmenn ættu að vera í almennum verkalýðsfélögunum eða hinum. Ég tel að starfsmenn eigi sjálfir að ráða því og það er hin almenna stefna. Stundum hafa menn viljað vera í opinberu félögunum, stundum úti á almenna markaðnum. Það hefur verið á víxl eftir atvikum og í gegnum tíðina, m.a. með tilliti til mismunandi réttinda. Það er alls ekki svo að það hafi eingöngu verið flótti úr almennu verkalýðsfélögunum yfir til opinberra starfsmanna.