2002-12-12 10:42:10# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er fylgjandi því að jafna kjörin í þjóðfélaginu, og þá verði einnig horft til þeirra launamanna sem standa innan vébanda samtaka opinberra starfsmanna og annarra. Þá þarf allt að vera undir, laun, kjör, réttindi, öll starfsréttindi. Eina grundvallarforsendu þarf að hafa í huga, þegar kjörin eru jöfnuð verði jafnað upp á við en ekki niður á við.

Hvers vegna segi ég þetta? Ég segi þetta af fenginni reynslu og ég fullyrði að innan opinbera geirans hafa stéttarfélögin aftur og ítrekað staðið frammi fyrir þeirri kröfu að réttindi þeirra yrðu rýrð en ekki bætt og þau hafa þurft að hafa verulega fyrir því í kjarabaráttu sinni að standa vörð um réttindi og kjör. Þar vísa ég til lífeyrisbaráttunnar. Þar háðu samtök opinberra starfsmanna áralanga varnarbaráttu og að lokum sóknarbaráttu sem allt þjóðfélagið hefur hagnast á og á eftir að hagnast á þegar fram líða stundir. En það verður að segjast eins og er að þessi barátta fékk ekki alltaf mikinn stuðning í þjóðfélaginu almennt og þar vísa ég til annarra samtaka launafólks. Við eigum að tala um þessi mál af fullum heiðarleika.

Það minnti líka á þessa gömlu kröfu um að jafna kjörin niður á við þegar krafa um hækkun á orlofsuppbót var slegin út af borðinu í síðustu kjarasamningum á þeirri forsendu að rétt væri að jafna kjörin niður á við en ekki upp á við. Það sem ég vildi segja er þetta: Við skulum jafna kjörin en við skulum alltaf sækja fram á við, aldrei aftur á bak og aldrei niður á við í viðleitni okkar til að bæta og jafna kjörin í landinu.