2002-12-12 10:46:27# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:46]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umræðu samræming á réttindum starfsmanna sem eiga aðild að ólíkum heildarsamtökum, annars vegar félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna og hins vegar félagsmenn innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu og sækja fyrirmynd í kjör þeirra sem starfa á almennum markaði. Þessir tveir hópar launamanna hafa í gegnum tíðina haft ólíkar áherslur í samningum við viðsemjendur sína. Þannig hefur t.d. verkfallsréttur, veikindaréttur, sjúkrasjóðsmál, slysaréttur, lífeyrisréttur og önnur réttindamál þróast á mismunandi máta. Stundum er rétturinn betri hjá opinberum starfsmönnum og stundum liggur ávinningurinn hjá þeim sem eru innan ASÍ.

Réttindi launamanna eru yfirleitt niðurstaða kjarasamninga eða samráðs og viðræðna um ákveðna þætti. Þau eru síðan oft staðfest með lögum. Á síðustu árum hafa stéttarfélög opinberra starfsmanna og stéttarfélög launafólks á almenna markaðnum lagt aukna áherslu á samræmingu á réttindum þessara tveggja hópa launamanna enda eru mörk milli starfsemi ríkisins og hins almenna markaðar ekki eins skýr og áður.

Við sem höfum fylgst með þessari þróun höfum orðið vitni að stórstígum framförum í þessa átt á síðustu árum. Hér nefni ég t.d. rétt til fæðingarorlofs sem var stórt skref í jafnræðisátt milli þessara tveggja hópa. Einnig nefni ég þær breytingar sem urðu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna þar sem myndun lífeyrisréttar nýrra starfsmanna var færð til samræmis við réttindakerfi á almenna markaðnum. Þá hafa vinnutímaákvæði verið samræmd svo og launakerfi þar sem launaákvarðanir eru í auknum mæli dreifistýrðar.

Herra forseti. Fjámálaráðherra lýsti því yfir fyrir réttu ári að hann stefndi að því að ná ásættanlegri niðurstöðu á samræmingu á réttindum þessara tveggja hópa. Þegar um svo flókin mál er að ræða þarf oft langan tíma til að ná niðurstöðu. Þetta eru samningar milli aðila og þá á að leysa við samningaborðið og hvergi annars staðar. Þeir verða alla vega ekki leystir með umræðu í þinginu, hvorki nú, fyrr né hér eftir.