2002-12-12 10:48:37# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur nauðsynlega umræðu. Það er með ólíkindum að þessi umræða þurfi að fara fram. Allt er það vegna einstaks sleifarlags í tengslum við þetta mál.

Eins og fram hefur komið gaf hæstv. fjmrh. út yfirlýsingu 13. des. 2001 um að færa réttindi launafólks í ASÍ til jafns við félagsmenn í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Það vantar dag upp á að ár sé liðið frá þessari yfirlýsingu og auðvitað eðlilegt að ganga eftir því hver staðan er í málinu. Ætlar hæstv. ráðherra fjármála að standa við yfirlýsingu um að jafna réttindin eða er yfirlýsingin eitthvert prump?

Launamenn hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins en ekki ríkið. Ég segi að jafnræðisreglan sé þar með brotin. Það er ekki nóg með að hæstv. ráðherra hafi ekki staðið við yfirlýsingar um málið heldur ber hann einnig ábyrgð á því að engin niðurstaða liggur fyrir um jöfnun umræddra réttinda.

Virðulegur forseti. Í þessu máli sem ýmsum öðrum er umvöndunar þörf. Hana á að veita með því að slá núv. ríkisstjórn af í komandi kosningum. Hæstv. fjmrh. talar um að fæðingarorlofið sé hluti af þessu máli. Það er mál er liðin tíð og var komin til áður en yfirlýsingin var gefin.

Hæstv. ráðherra telur í svari sínu að menn séu ekki læsir á yfirlýsingar. Ég get ekki betur heyrt, virðulegur forseti, en að hæstv. ráðherra skilji ekki eigin yfirlýsingar eða þau fyrirheit sem hann hefur gefið í samkomulagi við þá sem hæstv. ráðherra á í deilum við.