2002-12-12 10:52:54# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:52]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að jafna beri kjör á vinnumarkaði á sem allra flestum sviðum. En ég minni líka á að hvert stéttarfélag hefur sjálfstæðan rétt þegar kemur til viðræðna um kaup og kjör. Í samningaviðræðum er aldrei hægt að varpa sökinni eingöngu á annan aðilann. Ábyrgðin er auðvitað beggja.

Mér finnst á margan hátt að ASÍ hafi verið að breyta um stefnu. Stefna þeirra í kjarabaráttu og samfélagsbaráttu er á margan hátt mun ábyrgari heldur en hún var í eina tíð. ASÍ hefur líka náð mjög farsælum árangri hvað þetta varðar. Ég minni á mjög farsælt samstarf ríkisstjórnarinnar og forustu ASÍ þegar menn voru að velta fyrir sér rauðu strikunum. Það var mjög athyglisverð samvinna og þá náðist mjög farsæll árangur. Mér finnst stefna ASÍ-manna að þessu leyti góð og tel að þeir hafi sýnt mikið meiri ábyrgð en mörg önnur stéttarfélög hvað þetta varðar.

En enn og aftur, þegar um viðræður stéttarfélaga er að ræða við atvinnurekendur þá getum við ekki varpað ábyrgðinni einungis á annan aðilann.