Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:01:32 (2535)

2002-12-12 11:01:32# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Sú skýrsla sem hér liggur frammi fjallar um leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg, samþykktir fundarins og þýðingu fyrir heimsbyggðina og Ísland. Það kom í minn hlut sem umhvrh. að taka þátt í samningaviðræðum ráðherra í Jóhannesarborg. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson var formaður sendinefndarinnar og flutti ávarp á leiðtogafundinum fyrir Íslands hönd og er ræðu hans að finna í viðauka við skýrsluna.

Samþykktir fundarins voru mjög viðamiklar og engin leið að gera þeim fullnægjandi skil í stuttri framsögu. Stefnumótandi stórfundir af þessu tagi eru einnig þess eðlis að langan tíma tekur að hrinda samþykktum þeirra í framkvæmd og mörg ár getur tekið að meta hver áhrif þeirra voru í rauninni. Ég mun hér stikla á stóru og einblína á nokkur þau atriði sem ég tel að standi upp úr.

Það er mitt mat að fundurinn hafi skilað miklu og árangur hans jafnvel orðið meiri en margir bjuggust við þegar undirbúningur hans hófst fyrir tæpum tveimur árum. Fundurinn kemur í kjölfar áratugar mikillar eflingar alþjóðasamvinnu á sviði umhverfisverndar og annarra sviða sem snerta sjálfbæra þróun. Á heimsráðstefnunni í Ríó árið 1992 og fjölmörgum fundum og ráðstefnum í kjölfar hennar hefur verið lagður grunnur að samvinnu ríkja heims til þess að bregðast við mörgum af mest aðkallandi viðfangsefnum mannkyns.

Samþykktir fundarins í Jóhannesarborg draga saman á heildstæðan hátt samþykktir síðustu tíu ára á sviði umhverfisverndar, efnahagssamvinnu og félags- og velferðarmála. Um leið er vísað fram á veginn og bent á nokkur forgangsmál í baráttunni gegn fátækt og umhverfisvá á næstu árum.

Margir hafa gagnrýnt að samþykktir leiðtogafundarins í Jóhannesarborg hafi ekki gengið enn lengra í skuldbindingum um nýjar aðgerðir, sérstaklega hafi ekki verið nóg um tímasett markmið. Á móti er bent að það er enginn skortur á skuldbindingum eða áður samþykktum tímasettum markmiðum. Við verðum einnig að gæta þess að samþykktir af þessu tagi eru afrakstur málamiðlunar. Öll ríki heims verða að standa að samkomulaginu og enginn nær öllum sínum áherslum og baráttumálum fram.

Á síðasta áratug hafa ríki heims komið sér saman um fjölmarga alþjóðasamninga og önnur tæki til þess að stuðla að sjálfbærri þróun. Á umhverfissviðinu mætti t.d. nefna loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunina, samninginn um líffræðilega fjölbreytni og Stokkhólmssamninginn gegn þrávirkum lífrænum efnum og aðrar samþykktir gegn mengun hafsins.

Það sem á vantar er aukin áhersla á beina framkvæmd vel skilgreindra verkefna. Þar tel ég að Jóhannesarborgarfundurinn hafi skilað árangri með því að hvetja til samstarfsverkefna um framkvæmd forgangsmála. Ég vil nefna örfá dæmi.

Samþykkt fundarins um átak á sviði fráveitu- og hreinlætismála gæti þýtt gjörbreytingu á lífskjörum hundruð milljóna manna sem búa við óviðunandi ástand á þessu sviði. Aukin áhersla á bæði aðgengi að orku og mikilvægi endurnýjanlegrar orku er einnig mikilvæg. Nú eru um tveir milljarðar manna án aðgangs að rafmagni þannig að aðgangur að orku er mikilvæg forsenda framfara en ef orkan kemur eingöngu frá bruna jarðefnaeldsneytis mun það hafa afdrifarík áhrif á loftslag jarðar. Það er því ánægjuefni að loksins hafi tekist að fá ríki heims til að viðurkenna að aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa sé brýnt forgangsmál mannkyns en eins og kunnugt er lögðust mörg olíu- og kolaframleiðsluríki gegn slíku orðalagi.

Ísland var í hópi þeirra ríkja sem börðust fyrir framsæknu orðalagi varðandi endurnýjanlega orku og tel ég okkur hafa haft þar erindi sem erfiði og náð árangri.

Ísland lagði líka áherslu á málefni hafsins í samningaviðræðum í Jóhannesaborg en við höfum lengi sett metnað okkar í að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og fyrir sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda sjávar. Í samþykktum Jóhannesarborgarfundarins er m.a. kveðið á um að byggja eigi upp fiskstofna þannig að þeir skili hámarksafrakstri eigi síðar en árið 2015. Grípa á til aðgerða gegn mengun hafs frá landi í samræmi við Washington-áætlunina fyrir árið 2004. Það ár á einnig að hefjast regluleg úttekt á vegum Sameinuðu þjóðanna á ástandi heimshafanna. Sú samþykkt er til komin að tillögu Íslands og verður vonandi bæði til þess að auka þekkingu okkar á heimshöfunum og til þess að beina sjónum manna í auknum mæli að lausn á þeim vanda sem felst í mengun hafsins.

Það væri hægt að halda lengi áfram að fara yfir samþykktir leiðtogafundarins í Jóhannesarborg enda má telja víst að aldrei hafi þjóðir heims samið um jafnyfirgripsmikil málefni á nokkrum fundum. Það sem skiptir þó mestu máli er ekki orðalagið heldur framkvæmdin. Í Jóhannesarborg var reynt að tryggja eftir megni að efndir mundu fylgja orðum. Þar má nefna að í fyrsta sinn á slíkum fundi voru ýmis framkvæmdarverkefni hluti af formlegri samþykkt fundarins, flest á þeim sviðum þar sem talið var að fundurinn gæti náð mestum árangri, svo sem í orkumálum, bættu aðgengi að ferskvatni og heilbrigðismálum.

Starf nefnda Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem á að fylgja eftir samþykktum í Ríó og Jóhannesarborg verður eflt. Það er þó einkum undir ríkjum heims komið að framkvæma samþykktir fundarins í samvinnu og hvert í sínu lagi. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir fundinn nýja stefnumörkun um sjálfbæra þróun, ,,Velferð til framtíðar``, sem verður endurskoðuð reglulega og árangur mældur á tölulegan hátt eftir því sem hægt er.

Við hyggjumst taka þátt í nýjum þróunarverkefnum á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku þar sem Íslendingar hafa miklu að miðla eins og sést í öflugu starfi Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Við höfum verið að efla þróunaraðstoð okkar á síðustu árum og verður hún efld enn frekar í framtíðinni.

Ég tel að niðurstaða Jóhannesarborgarfundarins sýni að við séum á réttri leið. Þróunaraðstoð Íslands nýtist mjög vel og miðar beint að því að auðlindir þróunarríkja verði nýttar á sjálfbæran hátt til þess að draga úr fátækt og bæta lífskjör.

Ég vil hér einnig, virðulegur forseti, þakka gott samstarf við alla þá sem tóku þátt í starfi íslensku sendinefndarinnar á fundinum í Jóhannesarborg. Fyrir utan ráðherra og embættismenn voru í henni fjórir alþingismenn auk fulltrúa frjálsra félagasamtaka og Reykjavíkurborgar. Ég tel mikilvægt að þingmenn og aðrir fái tækifæri til að kynna sér þau málefni sem rædd eru á fundum sem þessum. Við héldum nokkra fundi með sendinefndinni til að halda henni upplýstri um gang mála í samningaviðræðunum og afstöðu Íslands en nefndarmenn nýttu tækifærið í Jóhannesarborg líka til þess að taka þátt í og hlýða á einhverja hinna mörg hundruð hliðarfunda og annarra viðburða sem í boði voru á fundinum og í tengslum við hann.

Leiðtogafundurinn í Jóhannesarborg og viðburðir tengdir honum er fjölmennasta samkoma sem haldin hefur verið á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það eitt og sér sýnir hve mikill áhugi er á þeim málefnum sem þar voru rædd. Það er trú mín að við höfum stigið mikilvægt skref fram á við í Jóhannesarborg sem þarf að fylgja eftir hér á landi og á heimsvísu. Sjálfbær þróun hefur sýnt sig að vera gagnleg nálgun í þeirri viðleitni að berjast gegn fátækt og bæta lífskjör án þess að valda óbætanlegum skaða á umhverfinu.

Fyrir utan þær miklu samþykktir sem gerðar voru í Jóhannesarborg skiptir miklu máli að málefnin sem snúa að framtíð mannkyns á jörðinni fái þá athygli og umfjöllun sem fundur af þessu tagi getur veitt. Það er því niðurstaða mín, virðulegur forseti, að fundurinn í Jóhannesarborg hafi í heildina tekist mjög vel og muni fleyta okkur fram á við í framtíðinni varðandi sjálfbæra þróun.