Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:43:25 (2544)

2002-12-12 11:43:25# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir orð formanns umhvn. Það er hneyksli að Alþingi Íslendinga skyldi ekki eiga þarna fulltrúa sem það sjálft kostaði og taka þannig þátt í þessum stóra heimsviðburði með fullri reisn. Það var athyglisvert að a.m.k. einn fjölmiðill hér á landi sá ástæðu til að slá upp kostnaðinum af sendinefnd Íslands og hneykslast, ekki á því að alþingismenn sem þarna voru skyldu greiða kostnaðinn sjálfir heldur á kostnaði hinna sem þarna voru.

Það er með nokkuð blendnum hug, herra forseti, sem maður metur niðurstöður þessarar Jóhannesarborgarráðstefnu. Um margt eru niðurstaðan eða stöðumatið má segja sem þar fór fram, 10 árum eftir Ríó og enn þá fleiri árum eftir fyrstu ráðstefnuna í Stokkhólmi, vonbrigði vegna þess að miklu minna hefur gerst en ætlast var til eftir þessa stóru heimsviðburði á fyrri tíð.

Sama gildir að verulegu leyti um Monterrey-ráðstefnuna, um þróunarsamvinnu, um árþúsundaráðstefnuna og stóru heimsráðstefnurnar um fátækt. Því miður hafa aðgerðir látið á sér standa, efndir orðið litlar, t.d. á skuldbindingum auðugustu ríkja heims um framlög til þróunarsamvinnu og slíkra verkefna. Ástandið er þannig í dag að 800--1.200 milljónir manna búa að staðaldri við vannæringu. Mikill fjöldi fólks hefur ekki einu sinni aðgang að vatni og öðrum slíkum grundvallargæðum.

Samt blasir það verkefni við okkur að brauðfæða í viðbót við þá 6--6,5 milljarða manna sem búa á jörðinni í dag 3 milljarða í viðbót um eða upp úr miðri þessari öld. Hin stóru hnattrænu vandamál, herra forseti, banka æ fastar á dyrnar. Þó að vissulega sé jákvætt að menn komi saman og ræði málin eins og gert var í Jóhannesarborg þá verður ekki fram hjá því litið að í allt of litlum mæli er hægt að festa hönd á því sem raunverulega stendur til að gera til að maður geti sagt að maður sé bjartsýnn á framhaldið.