Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:50:18 (2547)

2002-12-12 11:50:18# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, KPál
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið ánægjuleg að mínu áliti og gagnleg. Það hefur komið fram að staða okkar Íslendinga að þessu leyti er sennilega með því besta í heiminum og sjálfbær stefna okkar í orkumálum hefur náð hvað lengst. Sjálfbær stefna okkar í verndun líffræðilegrar fjölbreytni er líka góð og sjálfbær stefna okkar í fiskveiðimálum hefur verið á réttri leið.

Það verður samt að segjast eins og er að fáar stefnur eru gallalausar og mesti galli fiskveiðistefnu okkar er ofurvald útgerðarmanna yfir byggðum landsins og hvernig þeir beita sumir valdi sínu til skoðanakúgunar. Þetta ofurvald gæti orðið hættulegt lýðræðinu ef svo heldur fram sem horfir og að því leyti til get ég tekið undir áhyggjur manna út af því hvert stefnir að þessu leyti.

Ég vil í lokin, herra forseti, þakka hæstv. umhvrh. og hæstv. forsrh. fyrir það hvernig þau tóku á aðkomu samtaka á ráðstefnunni og hvernig þau heimiluðu svokölluðum óháðum félagasamtökum aðkomu að opinberu sendinefndinni. Það var eftir því tekið annars staðar hversu lýðræðislega var tekið á þessu af okkar hálfu og höfðu Svíar t.d. orð á því að fulltrúar þeirra, t.d. í sveitarstjórnum, hefðu ekki þann aðgang sem okkar fulltrúar höfðu að opinberu sendinefndinni. Það er mjög vel við hæfi að Íslendingar sem lýðræðiselskandi þjóð komi fram við félagasamtök með þessum hætti.