Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:52:26 (2548)

2002-12-12 11:52:26# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það má sannarlega taka undir margt sem hér hefur komið fram, t.d. það að eflaust hefðu allir ræðumenn óskað sér lengri tíma í þessa umræðu en hér er gefinn. Ég vil sérstaklega þakka hv. formanni umhvn. fyrir það sem hann lagði inn í umræðuna varðandi hlut Alþingis, þ.e. skort á þátttöku Alþingis í því að senda lýðræðislega kjörna þingmenn til þessarar mikilvægu ráðstefnu.

Ég tek undir með hv. 12. þm. Reykn. varðandi þá hugmynd sem hér kom fram um þverpólitíska samstarfsnefnd allra flokka í málefnum sjálfbærrar þróunar. Ég tel það afar góða hugmynd sem er virkilega vert að skoða og það gæti komið þessari umræðu í einhvern farveg sem hættir að vera kýtur eða þrætur, við gætum komið umræðunni í þann farveg að við förum að búa til alvörutækifæri fyrir okkur til að feta þessa vegferð sjálfbærrar þróunar.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted kom inn á deilurnar um sjálfbærni í vatnsaflsvirkjunum og það var auðvitað eitt af því athyglisverða fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með í umræðunum í Jóhannesarborg. Það er full ástæða til að draga það hér fram í dagsljósið að stórar vatnsaflsvirkjanir eru á þessum vettvangi ekki taldar vera sjálfbærar og síst af öllu ef um er að ræða virkjun á jökulvatni. En, herra forseti, eftir að hafa setið þetta heimsþing komast menn auðvitað ekki hjá því að sjá að efnahags- og lífsmynstur Vesturlandabúa getur ekki dugað sem fyrirmynd fyrir heimsbyggðina til framtíðar. Ef okkur á að takast að snúa vörn í sókn í þessum efnum er okkur, ríku þjóðunum, nauðsynlegur einn kostur. Hann er sá að hverfa frá þeirri sóunar- og mengunarstefnu sem við ástundum og höfum ástundað í eigingirni okkar, græðgi og þröngsýni allt of lengi.