Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:28:30 (2553)

2002-12-12 12:28:30# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:28]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í andsvari koma að tveimur atriðum, þ.e. tilhneigingu til miðstýringar og minnkandi samráði við heimamenn og starfsmenn.

Það er ekki stefna ráðuneytisins að auka miðstýringu í málaflokknum. Hún hefur ekkert haldist í hendur við stjórnir í heilsugæslustöðvum. Ég hef reynslu af því að þar sem heilbrigðisstofnanir hafa sameinast í stærri og sterkari heildir undir styrkri forustu að þeirra mál hafa ekki verið inni á borðinu í ráðuneytinu. Þannig viljum við að þróunin verði, þ.e. að stofnanir séu öflugar og hafi samstarf út um landsbyggðina og annars staðar, hafi öfluga stjórn og öfluga forustu, öfluga framkvæmdastjóra.

Svo er annað mál með starfsmannaþáttinn. Með þessari skipan missa starfsmenn fulltrúa út stjórnum. Ég hef af því vissar áhyggjur og mun beina því til forstöðumanna stofnana að koma upp föstu og skipulegu samráði við starfsfólk eftir ákveðnum reglum sem við munum finna upp í sameiningu. Ég vil koma þessu að um starfsmannaþáttinn. En breytingin er til komin auðvitað vegna þess að fulltrúar sveitarfélaganna fara eðli máls samkvæmt út úr stjórnunum þegar ríkið tekur þennan málaflokk algjörlega yfir, bæði fjárfestingu og rekstur.