Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:30:31 (2554)

2002-12-12 12:30:31# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig alls ekkert að bera það upp á hæstv. heilbrrh. að hann sé sérstakur miðstýringarsinni og þetta sé eitthvert keppikefli hans sem slíks. Það sem ég er ósköp einfaldlega að benda á er að þetta er að gerast. Og væntanlega væri þetta ekki flutt hér sem stjórnarfrv. ef það væri hæstv. heilbrrh. þvert um geð a.m.k. En þetta er sem sagt það sem er að gerast hér í hverju skrefinu á fætur öðru.

Með því að leggja niður embætti héraðslæknanna og því miður kannski hafði staða þeirra veikst vegna þess að að mínu mati hafði alls ekki verið að þeim búið og þeim sköpuð skilyrði og færð verkefni eins og rétt hefði verið og skylt, þá var tekinn í burtu út úr landshlutunum helsti votturinn af stjórnsýslu á sviði heilbrigðismála á viðkomandi svæðum. Það var viðleitni til þess að færa stjórnunarlegt vald eða færa stjórnsýslu út í landshlutana í málaflokknum. Og með því að eða ef stjórnir þessara mikilvægu heilbrigðisstofnana, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva o.s.frv. verða slegnar af, þá tapast einnig sá þáttur burtu sem þar var á ferðinni og þar á meðal hlutdeild starfsmanna eða möguleikar starfsmanna til þess að hafa áhrif á sínum vinnustað.

Hæstv. ráðherra talar um að beina því þá til forstöðumanna að hafa samráð við starfsmenn. Ef það væri þá vísir að einhverju slíku í frv., t.d. einhver lögvernduð eða lögbundin skylda til slíks samráðs, en það er ekki. Málið er mjög hrátt að þessu leyti. Það á bara að henda þessu út, fulltrúum starfsmannanna út úr stjórnum og ekkert annað er hér í lagatextanum eða frumvarpstextanum sem á að koma í staðinn.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Á þá ekki að athuga þetta aðeins betur og útbúa slík ákvæði a.m.k. áður en menn gera breytinguna?