Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:32:46 (2555)

2002-12-12 12:32:46# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég er að sjálfsögðu fylgjandi frv. svo enginn misskilningur sé í því sambandi.

En varðandi starfsmennina sem mér finnst áríðandi atriði í frv., þá finnst mér skipta máli að gefa yfirlýsingar um hvernig við hyggjumst vinna að því máli í framhaldinu. Ég hyggst vinna þannig að því að semja einhverjar leiðbeinandi reglur, sem við getum auðvitað gert grein fyrir, um það hvernig samráð starfsmanna yrði við forstöðumenn stofnana. Ég tel að það þurfi að vera, það þurfi að viðhalda því og ég tel þá að yfirlýsingar mínar um það séu einhvers virði við þessa umræðu.

Hvað varðar embætti héraðslæknanna þá voru þau embætti barn síns tíma og verkefni þeirra höfðu farið meira og minna yfir til heilsugæslunnar og þessi lagabreyting var í framhaldi af því.

En ég endurtek að mér finnst miklu máli skipta að auka samvinnu stofnana og e.t.v. samruna þar sem hagar þannig til úti á landsbyggðinni, mynda sterkari stofnanir sem geta tekið á sínum málum og þá þarf ekki að hafa áhyggjur af miðstýringu heilbrrn. í þessum málaflokki. Það er ekki keppikefli að ráðuneytið þurfi að standa í daglegri stjórnun á slíkum stofnunum og það er alls ekki æskilegt.