Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 13:59:43 (2565)

2002-12-12 13:59:43# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að koma með smáathugasemdir þar sem ég gat því miður ekki verið við umræðuna hér áður. Ég vil gjarnan taka undir orð hv. þm. Ástu Möller um að fá svar við spurningunni um af hverju stjórnarnefndir Ríkisspítala sitja áfram undir sama hatti, en aðrar sjúkrahússtjórnir eru felldar niður. Sömuleiðis um samruna og rekstrarform þar sem samruni er milli öldrunarstofnana og sjúkrahúsa, þar sem við erum vonandi að fara inn í nýtt fyrirkomulag á greiðslukerfi og hvernig við komum þá út í samanburði milli sjúkrahúsa, einkum og sér í lagi með tilliti til þess sem ég hef nefnt hér áður fyrr í þinginu að samanburður við sambærileg sjúkrahús erlendis sé illgerlegur vegna mismunandi forsendna.

[14:00]

Hér kemur t.d. fram að sveitarfélögin eigi að vera áfram eigendur að núverandi eignarhluta en taki ekki þátt í viðhaldskostnaði. Að sama skapi skuli ríkið yfirtaka hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkra- og deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Ég vil fá að spyrja hæstv. heilbrrh. á hvaða forsendum þetta sé lagt til. Af fenginni reynslu af stjórnarnefnd Ríkisspítala þá sé ég í raun ekki eðlismun milli stjórnarnefndar Ríkisspítala og annarra stjórna sjúkrahúsa. Ég held að valdssvið þeirra sé ákaflega svipað, því miður, og að valdssviðið hafi verið of lítið fram til þessa.

Sömuleiðis vil ég gjarnan fá svar við því á hvaða grunni samanburðurinn við önnur sambærileg sjúkrahús erlendis muni fara fram með tilliti til sameiningar sjúkrahúsa eins og til stendur í þessu frv.