Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:02:12 (2566)

2002-12-12 14:02:12# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fjalla hér aðeins nánar um þann þátt þessa máls sem lýtur að því að fella niður eða slá af allar stjórnir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og samhengi þess máls við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytta kostnaðarskiptingu milli þessara aðila eða öllu heldur að sveitarfélögin hætti þátttöku í greiðslu stofnkostnaðar við þessar stofnanir.

Ég held að það sé oftúlkun og beinlínis rangt að halda því fram að sveitarfélögin séu á nokkurn hátt aðilar að samkomulagi um að leggja þessar stjórnir niður. Ég hef nú farið betur yfir og við höfum athugað hér undir umræðunni betur þetta samkomulag. Þar stendur það eitt, herra forseti, að samhliða fyrrgreindum breytingum, þ.e. þessum breytingum á kostnaðarþátttöku, falli brott núverandi aðild sveitarfélaga að stjórnum heilsugæslustöðva og umræddra flokka sjúkrahúsa samkvæmt framangreindum lögum o.s.frv.

Það er allt annar hlutur, herra forseti. Sveitarfélögin sættast á að þau missi sína fulltrúa í þessum stjórnum með því að þau hætta að greiða hluta af stofnkostnaðinum. Í því er ekki fólgið af þeirra hálfu samþykki við eða samkomulag um að stjórnirnar verði slegnar af. Það er allt annar hlutur. Þeir kannast ekki við það, forsvarsmenn sveitarfélaganna, að þeir hafi sérstaklega skrifað upp á slíkt eða séu aðilar að slíku. Þetta verður að vera algjörlega á hreinu, að það er ekki samkomulag um það sem slíkt við sveitarfélögin í landinu að slá af þessar stjórnir. Það er misskilningur. Það er mjög alvarlegt ef menn lenda í því að oftúlka þetta.

Þetta skýrir líka að það kemur sveitarstjórnum og þeim byggðarlögum sem hafa tilnefnt fulltrúa inn í þessar stjórnir algerlega í opna skjöldu að fá þessar fréttir. Þeir spyrja eðlilega: ,,Hvaðan kemur umboð okkar stjórnar til þess að semja um slíkt sem aldrei hefur verið rætt á fundum á okkar samkomum, hvorki á landsþingi sveitarstjórnarmanna né á fulltrúaráðsfundi eða hvað það nú allt heitir?`` Skýringin er þessi: Sveitarstjórnirnar eru alls ekkert aðilar að neinu samkomulagi um að slá þessar stjórnir af. Ég hef ástæðu til þess að ætla að við það sé mjög víðtæk andstaða þar á meðal.

Ég vil reyndar meina að það hafi verið algjör mistök af sveitarfélögunum, meira að segja að ganga svo langt að fallast á að missa sína fulltrúa, vegna þess að þau koma til með að eiga í fyrsta lagi aðild að þessu áfram. Þau eiga sín 15% í þeim stofnkostnaði sem til er fallinn. Þau fá hann ekki endurgreiddan þannig að hann situr þarna. Þar af leiðandi eru nú strax komin ákveðin rök fyrir því að þau eiga hagsmuni í þessu. Í öðru lagi er, burt séð frá því hvort þau eru að borga inn í stofnkostnaðinn, rík ástæða til þess að sveitarfélögin geti verið þátttakendur í stjórnun þessara mikilvægu stofnana og komið að því hvernig þessi mikilvæga þjónusta er veitt og hún skipulögð.

Ég held því að þegar þetta er betur skoðað, herra forseti, að það sé algerlega ástæðulaust og ótímabært að tengja þá breytingu að slá af stjórnirnar á nokkurn hátt við þetta fjárhagslega samkomulag. Það er bara algerlega aðskilinn þáttur.

Það er ljóst að stjórn Sambands sveitarfélaga eða forusta sambandsins hefur fallist á að núverandi aðild sveitarfélaganna að stjórnunum hverfi --- um það má deila hversu heppilegt það er --- en annað ekki. Þar af leiðandi verða engin rök sótt í þetta samkomulag fyrir þessari kerfisbreytingu sem slíkri og þaðan af síður í að hraða því í gegnum þingið á örfáum klukkutímum.

Hafi verið rík ástæða til þess að fara fram á það eins og ég lagði til í fyrri ræðu minni að þessu yrði skipt upp og eingöngu ákvæði frv. er lúta að kostnaðarþátttökunni tekin hér í gegn, þá held ég að þau hafi nú styrkst mjög með þessu. Ég fer alveg eindregið fram á unnið verði samkvæmt því í hv. þingnefnd að þetta verði skoðað. Þá held ég að geti verið samstaða um þetta mál. Enginn vill leggja stein í götu þess að þessi fjármálalegi hluti málsins nái hér fram að ganga þannig að frá og með áramótum verði sveitarfélögin leyst undan þessari kostnaðarþátttöku í stofnkostnaðinum úr því að það er orðin niðurstaða í þessum fjárhagslegu samskiptum, sem við munum svo ræða hér væntanlega síðar á þessum fundi þegar til umræðu kemur frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. En höldum þessum kerfisbreytingum sem sagt og stjórnskipulagsbreytingum þarna algerlega aðgreindum. Ég held að það sé algerlega óforsvaranlegt að taka þetta hér í gegn með þessum hætti og að stórlega skorti á að nokkurt eðlilegt samráð eða tækifæri hafi þá gefist til þess að menn komi sjónarmiðum sínum á framfæri o.s.frv.

Ég vona því, herra forseti, að það megi takast samkomulag um meðferð málsins eitthvað á þessum nótum, ella held ég að óhjákvæmilegt sé að um þetta geti orðið verulegar deilur því það er þegar ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir úti í hinum einstöku byggðarlögum um ágæti þessarar breytingar. Mér finnst bera þar miklu meira á andstöðu en hrifningu við hana þannig að það er mál sem þyrfti að athugast betur.