Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:42:48 (2585)

2002-12-12 14:42:48# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi skipun í stjórnir hefði auðvitað verið hægt að hugsa sér að hafa það eins og hv. þm. sagði, að skipa fimm fulltrúa í stjórnina, en vandinn er bara sá eins og ég hef margtekið fram í þessari umræðu að það rekst á við lög um réttindi og skyldur forstöðumanna stofnana. Verksvið stjórnanna er meira og minna í lausu lofti.

Ég endurtek það sem ég sagði að það væri alveg ástæða til að ræða einnig um stöðu stjórnar Landspítala -- háskólasjúkrahúss en hún er kjörin á annan hátt og ég hef rakið það áður.

Varðandi leiguna er sjálfsagt að skoða það. Hins vegar minni ég á að það er búið að yfirtaka stofnkostnað og viðhald. Mér finnst það frekar vafasamt að einhver, leigutaki í þessu tilfelli, sjái um allt viðhald á húsnæðinu og leigi það svo. Þetta var samkomulagsatriði og ég ætla ekki að rekja það í sjálfu sér en ég lít svo á að það sé hluti af samkomulaginu að ekki sé greidd leiga þarna. Það er reiknað með að þessi löggjöf taki gildi 1. janúar og þá falli umboð stjórnanna niður með þessari lagasetningu. Það er í gildistökuákvæði frv.