Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:02:33 (2590)

2002-12-12 15:02:33# 128. lþ. 54.2 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ekki var það tilgangur minn með því að svara frammíkalli áðan að gera hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni upp skoðanir. Ég harma það ef svo hefur verið en ég held að það hafi ekki verið. Það er hins vegar rétt að þegar kallað er fram í þarf stundum að bregðast við því, sama hvort það er sagt í gamansömum tón eða alvöru.

Úr því að hv. þm. er farinn að ræða um stöðu Byggðastofnunar sem hann telur vera vel í stakk búna --- ég vildi frekar spyrja út í það hvort hann telji Byggðastofnun vel í stakk búna til að auka fé og lána það í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, sérstaklega eins og staða Byggðastofnunar er í dag. Okkur berast upplýsingar um að þar séu allir sjóðir tómir, allt lánsfé búið og ekki sé hægt að lána neitt vegna þess að peningar þeir sem Byggðastofnun hefur með að fara til að veita lán til atvinnurekstrar á landsbyggðinni, annaðhvort til skuldbreytinga eða lagfæringa eftir slæm ár í atvinnurekstri, séu uppurnir. Ég spyr bara hvort hv. þm. telji Byggðastofnun í dag það vel í stakk búna að hún geti tekið þetta að sér í auknum mæli.