Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:21:40 (2595)

2002-12-12 15:21:40# 128. lþ. 54.4 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Staða þessa máls, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þegar það er nú tekið til 3. umr. er að við 2. umr. voru samþykktar skattalækkanir á fyrirtæki og hátekjufólk, aukin var heimild til fyrningar á rekstrartöpum og lækkun á hátekjuskattinum sem skilar þeim sem eru með 500 þús. kr. í tekjur á mánuði eða liðlega það á næsta ári, um 2.700 kr. á mánuði í skattalækkun og síðan fylgir með lítils háttar hækkun á persónuafslætti upp á 107 kr. á mánuði til viðbótar því sem áður var gert ráð fyrir í fjárlögum til láglaunafólks.

Þetta frv. fjallar að öðru leyti um ýmis atriði sem tengjast skatteftirliti og skattaframkvæmd. Við í 1. minni hluta efh.- og viðskn. fluttum nokkrar brtt. varðandi þau atriði við 2. umr. málsins. Þær voru kallaðar aftur til 3. umr. og eru fluttar hér á nýjan leik og koma þá til atkvæðagreiðslu nú við lokaafgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Brtt. sem voru kallaðar aftur snerta meðferð í stjórnsýslunni að því er varðar að setja reglur um reiknað endurgjald og reglur um hlunnindamat. Hæstv. fjmrh. leggur til í sínu frv. að í stað þess að ríkisskattstjóri setji slíkar reglur þá verði það fjmrh. sem setji slíkar reglur að fengnum tillögum ríkisskattstjóra.

Það er alveg ljóst að verulegur ágreiningur er milli ráðuneytisins og ríkisskattstjóra um þá leið sem hér er verið að leggja til af hálfu stjórnvalda eða hæstv. fjmrh. Mér finnst, herra forseti, töluverð stífni í þessu af hálfu fjmrn. að geta nú ekki sest yfir það að koma með tillögur sem bærileg sátt getur orðið um vegna þess að í grundvallaratriðum er verið að gera breytingu á skattastjórnsýslunni sem gengur í þveröfuga átt við það sem er á hinum Norðurlöndunum.

Við í 1. minni hluta leyfðum okkur að setja fram brtt. sem mætir þeirri gagnrýni sem er uppi af hálfu fjmrh. á framkvæmdina á þessum málum, þ.e. hlunnindamatinu og reiknaða endurgjaldinu af hálfu ríkisskattstjóra, en deilur risu um þetta milli ráðuneytisins og ríkisskattstjóra þegar ríkisskattstjóri setti reglur um þetta reiknaða endurgjald og reglur um hlunnindamatið fyrir --- ja, ég man nú ekki fyrir hvað löngum tíma síðan. (Fjmrh.: Í janúar.) Í janúar, segir hæstv. fjmrh.

Tillögur okkar sem við héldum að gætu verið til sátta og málamiðlunar og það var nú m.a. ástæða þess að við drógum þær til baka til 3. umr., eru í þá veru að ekki verði breytt þeirri stjórnsýslu sem verið hefur um þetta efni en að ríkisskattstjóri setji áfram árlega, þ.e. við upphaf tekjuárs, reglur um hlunnindamatið og reiknað endurgjald, og að það verði gert þannig að um verði að ræða ákveðnar verklagsreglur sem fjmrh. setur og er þannig kveðið svo á um þetta í þessum brtt. að nánari ákvæði um meginreglur og viðmiðanir í reglugerð verði settar af ráðherra skv. 119. gr. tekjuskattslaganna þar sem hann hefur heimildir til reglugerðarsetningar. Orðalagið lýtur sem sagt eins að báðum þessum atriðum, bæði hlunnindamatinu og reiknaða endurgjaldinu.

Ég rökstuddi þetta mjög ítarlega þegar við fjölluðum um þetta mál við 2. umr., fór yfir umsögn ríkisskattstjóra og þau rök sem ríkisskattstjóri setur fram í sínu máli og ég tel ástæðulaust að endurtaka það en vísa í umsögn hans og þann rökstuðning sem hann setur fram í þessu máli og við freistum þess nú við 3. umr. að reyna að ná sátt um þetta mál.

Brtt. sem við fluttum líka og var dregin til baka til 3. umr. lýtur að 6. gr. frv. Þar er lagt til að þegar um samsköttuð félög er að ræða skuli skattlagningarstaður þeirra vera í því umdæmi sem móðurfélag hefur aðsetur. Ríkisskattstjóri benti á, og reyndar gerði skattstjórinn í Reykjavík það líka, að ef þetta ætti líka að taka til einkahlutafélaga, þ.e. að þegar um samsköttuð félög er að ræða, skuli skattlagningarstaður þeirra vera í því umdæmi sem móðurfélagið hefur aðsetur, en ef þetta ætti að ná til einkahlutafélaga eða sameignarfélaga þá þyrfti að flytja um það sérstaka brtt. og hana tókum við upp í brtt. okkar. Þegar við fjölluðum um þetta mál í efh.- og viðskn. milli 2. og 3. umr. hélt fjmrn. því fram að óþarfi væri að setja fram slíka brtt. og telur að frv. nái líka til einkahlutafélaga þannig að nú þegar þetta mál er komið til lokaatkvæðagreiðslu eða lokaafgreiðslu í þinginu þá vitum við ekki enn hvor hefur rétt fyrir sér í því efni, ríkisskattstjóri eða fjmrn. Þetta atriði frv. er því nokkru uppnámi. Við teljum nauðsynlegt, alla vega til öryggis af því nauðsynlegt er að þetta nái til einkahlutafélaga líka, að flytja þessa brtt. Það sýnir auðvitað í hnotskurn, herra forseti, þann hraða á afgreiðslu þessa máls að við getum ekki einu sinni fengið botn í það hvort fjmrn. fari með rétt mál í þessu efni eða ríkisskattstjóri.

Við flytjum einnig samkvæmt ábendingu ríkisskattstjóra að okkar viti mjög mikilvægar brtt. sem eru nýjar og við kynntum við 2. umr. þessa máls. Ríkisskattstjóri vakti athygli á því í umsögn sinni sem hann sendi efh.- og viðskn. að rétt væri að breyta skipulagningu á þann veg varðandi skatteftirlit að skatteftirliti ríkisskattstjóra verði fengið það verkefni að hafa eftirlit með stórfyrirtækjum og fjölþjóðasamskiptum og að skatteftirlitið væri mannað í samræmi við það. Við bentum á að slíkt skref hafi þegar verið stigið fyrir löngu á hinum Norðurlöndunum og lögðum til brtt. í þessa veru.

Rökstuðningurinn er augljós í þessu efni. Fjármálastarfsemi og fjármagnsflutningar milli landa eru sífellt að aukast og eignatengsl fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa liggja í mörgum tilvikum í fleiri en einu skattumdæmi. Eignatengslin eru oft margþætt og öll fjármálaumsýsla og bókhaldskerfi í slíkum tilvikum orðin afar umfangsmikil og flókin og ekki á færi t.d. smærri skattstofa að ráða við svo að vel sé að halda uppi nauðsynlegu skatteftirliti. Þessar brtt. okkar tengjast því að taka upp sama fyrirkomulag og er á Norðurlöndum að því er varðar skatteftirlit og skattálagningu á stærri fyrirtæki þar sem eignatengsl eru milli landa eða milli skattumdæma þegar um stórfyrirtæki eða fjölþjóðaaðila er að ræða.

[15:30]

Við vildum auðvitað ræða þetta mál í nefndinni og heyra skoðun fjmrn. á því efni en það eina sem við fengum um það og haft var eftir ráðuneytisstjóranum var að fjmrn. væri jákvætt fyrir því að skoða þetta mál en teldi að eins mætti færa þetta í þann farveg að það yrðu önnur skattumdæmi en ríkisskattstjóraembættið sem hefðu þetta á sinni könnu. Við teljum að þegar um svona stórt mál er að ræða sé eðlilegast og best að hafa það staðsett hjá embætti ríkisskattstjóra en ekki að minni skattumdæmin verði með þetta á sinni könnu. Við flytjum því áfram þessar brtt. við 3. umr. að því er þennan þátt varðar.

Þá hef ég gert grein fyrir þeim brtt. sem við kölluðum aftur og flytjum á nýjan leik núna við 3. umr. málsins og vonum að um það geti náðst bærileg samstaða. Ég nefni það varðandi reiknaða endurgjaldið og hlunnindamatið að ekki er eining milli stjórnarflokkanna að hafa það fyrirkomulag sem fjmrh. setur fram í frv. sínu og er ástæða til að nefna það að formaður þingflokks framsóknarmanna er andsnúinn þeirri breytingu sem fjmrh. leggur til varðandi þessi atriði og gerði fyrirvara við það í nál. meiri hlutans og talaði gegn þeirri breytingu við 2. umr. málsins. Og það er vissulega slæmt, herra forseti, að hv. þm. skuli ekki geta verið viðstaddur þessa umræðu eða atkvæðagreiðslu um málið.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, gerði líka fyrirvara við það sem þegar hefur verið afgreitt eða í atkvæðagreiðslu við 2. umr., þ.e. heimild til þess að nýta rekstrartöpin ekki einungis í átta ár heldur í tíu ár, og færði fyrir því mjög sterk rök í framsöguræðu sinni við 2. umr. málsins (Gripið fram í: Er það ekki útrætt?) og gerði líka miklar athugasemdir við þá nýju brtt. sem ég ætla að gera að umræðuefni sem allt í einu skaut upp kollinum í efh.- og viðskn. eftir að hæstv. ráðherra hafði við 1. umr. mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. sú brtt. sem hv. þm., frsm. meiri hlutans, mælti hér fyrir áðan, að teknar verði upp stighækkandi fyrningar í stað línulegra fyrninga á lausafé sem hefur þau áhrif að fjárhæð fyrninga er hæst fyrstu árin og fer síðan lækkandi.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst satt að segja til mikils vansa hvernig það mál á að afgreiðast og nú þegar þessi brtt. birtist hér í fyrsta skipti í þingsölunum við 3. umr. málsins, lokaumræðu þess, þá er hún flutt sem brtt. af hálfu meiri hlutans án þess að nokkur einasta greinargerð fylgi. Og þingmenn sem eiga að taka afstöðu til málsins verða að gera það þá án þess að geta ítarlega kynnt sér málið og er það auðvitað til vansa við alla málsmeðferð að svona skuli vera að málum staðið vegna þess að þetta er stór breyting sem hér er á ferðinni.

Ég ætla að taka það fram, herra forseti, að ég er út af fyrir sig ekki á móti þessari breytingu og tel að hún gæti verið til bóta, ég vil ekki útiloka það. En ég er að gagnrýna málsmeðferðina í þinginu á breytingu á svona stórum þætti í skattamálunum sem tengist jú fyrningarmálum og rekstrartöpunum, að þessi háttur sé hafður á varðandi málsmeðferðina í þinginu.

Það gafst sem sagt enginn tími í nefndinni til þess að kanna eins og nauðsynlegt var áhrifin af þessari breytingu á rekstur fyrirtækja og skattgreiðslna og ekki síst skattaleg áhrif á ríkissjóð. Ríkisskattstjóraembættið fékk mjög skamman tíma til að kanna skattalegu áhrifin af þessari breytingu og hefur alla fyrirvara á í umsögn sinni hvaða skattaleg áhrif þetta hefur. Það sem ríkisskattstjóri setti fram á þeim stutta tíma sem hann hafði til að skoða málið er að þetta hefði þau áhrif að það gæti þýtt á fyrstu árum töluvert skattatap hjá ríkissjóði, þó að það sé út af fyrir sig rétt sem hv. þm. Einar Guðfinnsson nefndi áðan, að þetta mundi jafnast út síðar á tímanum. En fjmrn. áætlaði tekjutapið á árinu 2004 vera 100--150 milljónir og ríkisskattstjóri, ef ég man töluna rétt, nefndi um 118 milljónir.

Ég tel að nær hefði verið að fara þá almennt í heildarendurskoðun á fyrningarmálunum og almennt á rekstrartöpunum frekar en að fara þá leið sem hér er lögð til og hefði talið eðlilegra, herra forseti, að farin hefði verið sú leið að fjmrh. hefði látið fara fram endurskoðun á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt, um tekju- og gjaldfærslu vegna gengisbreytinga og verðlagsbreytinga lána með það að markmiði að skattstofn tekjuskattsfyrirtækja gæfi sem gleggsta mynd af raunverulegum hagnaði fyrirtækja og hægt hefði verið að ljúka þeirri endurskoðun þannig að þetta tæki gildi á árinu 2004 en ekki sé verið að hraða þessu í gegn hér með þeim hætti sem stjórnarflokkarnir beita sér fyrir.

Maður veltir fyrir sér hvað liggi á. Ef til vill er verið að mæta því að afkoma fyrirtækja hefur verið góð og fyrirsjáanlega mikill hagnaður hjá fyrirtækjum og því hefur einhver talið nauðsynlegt að koma með stiglækkandi fyrningar sem eru hæstar fyrstu árin til þess að þessi hagnaður skilaði sér nú ekki óeðlilega mikið í tekjuskatti ríkissjóðs á næstu árum, en hrein aukning milli áranna 2000 og 2001 á yfirfæranlegu rekstrartapi er um 57 milljarðar kr. Og fróðlegt væri, herra forseti, að fá yfirlit yfir það á síðustu árum hve margir hafa verið að tryggja sér rekstrartöp úr öðrum rekstri með því að leysa til sín illa stödd fyrirtæki einungis í þeim tilgangi að nýta rekstrartöp þeirra til að lækka skattgreiðslur.

En, herra forseti, ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt. Ég mótmæli þeirri málsmeðferð sem þessi brtt. hefur fengið varðandi fyrningarreglurnar og fyrningargrunninn. Þetta er töluvert stórt mál sem þarna er á ferðinni þegar verið er að gera svona miklar breytingar og hefði þurft að fara í eðlilega málsmeðferð, þ.e. verða tekið til 1., 2. og 3. umr., en ekki sé í fyrsta sinn verið að sýna þetta í þingsal við lokaafgreiðslu málsins eins og hér er gert og ekki með neinni greinargerð með brtt. sem þó hefði verið eðlilegt að gera til að leggja fram áhrifin og afleiðingarnar af þeirri tillögu sem hér er sett fram af hálfu meiri hlutans.

En, herra forseti, ég hef lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem við sýndum hér við 2. umr. málsins, kölluðum aftur í þeirri von að um þær geti náðst samstaða, sem ég vona nú að muni gerast við atkvæðagreiðslu þessa máls.