Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:00:29 (2599)

2002-12-12 16:00:29# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Saga fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda á Austurlandi er orðin harla viðburðarík og sannast sagna með miklum ólíkindum hvernig málflutningur ráðamanna hefur tekið breytingum frá einum tíma til annars. Fyrirtæki sem þótti einstaklega trúverðugt og traust einn daginn er nú sagt hafa verið hæpinn kostur. Þannig virðast stjórnvöld haga seglum eftir vindi til þess að ná fram þeim ásetningi sínum að virkja við Kárahnjúka hvað sem það kostar. Fyrir þjóðina er hins vegar örlagaríkt að ákvarðanir um slíka risaframkvæmd verði teknar á yfirveguðum forsendum en ekki samkvæmt fyrir fram gefinni niðurstöðu.

Í marsmánuði var opinberlega upplýst að Norsk Hydro væri gengið úr skaftinu og skömmu síðar var tilkynnt að risafyrirtækið Alcoa vildi skoða málið. Að undangengnum könnunarviðræðum komu fulltrúar fyrirtækisins hingað til lands og þann 19. júlí birtust fréttir af fundi iðnrh., forstjóra Landsvirkjunar og fulltrúum Alcoa þar sem undirrituð var viljayfirlýsing um framhald viðræðna og mat á hugsanlegum framkvæmum. Mörgum brá í brún þegar fulltrúi Alcoa á þessum fundi sagði að með yfirlýsingunni væri samningsferlið að komast á lokastig. Mönnum þótti þetta undarlegt í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga forstjóra Landsvirkjunar um að það væri ekki fyrr en opnuð hefðu verið tilboð í stóra verkþætti, þau rækilega skoðuð og lagt á þau raunsæismat sem unnt væri að gera sér grein fyrir hver ætla mætti að heildarfjárfestingin yrði og þar af leiðandi samningsforsendur gagnvart Alcoa.

Hæstv. viðskrh. var spurð að því á þessum fundi hvort raforkuverðið skipti ekki sköpum við mat á því hvort um arðbæra framkvæmd væri að ræða og svaraði hún því til að samningar við Norsk Hydro hefðu verið vel á veg komnir og þekktu menn hug hver annars. Ráðherrann klykkti síðan út með því að segja að forstjóri Landsvirkjunar mundi ekki komst upp með að stöðva framkvæmdina.

Um svipað leyti lýsti stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, því yfir að raforkusamningarnir mundu ekki koma í veg fyrir framkvæmdina og formaður Framsfl. sagði í ræðustól á Alþingi í fyrradag að ákvörðun hefði þegar verið tekin. Jafnframt segja þessir sömu aðilar, nú síðast viðskrh. í sjónvarpi í gær, að það sé ekki hennar að segja til um arðsemi framkvæmdarinnar, stjórnvöld leggi allt traust sitt á Landsvirkjun. Og Landsvirkjun segir gagnstætt stjórnarformanninum: Við munum þurfa að skoða útboðin rækilega áður en við kveðum upp úr með afstöðu okkar. Er nema von að menn spyrji hvað snúi upp og hvað niður á þessu öllu saman?

Fyrir ári síðan voru valdir fimm fyrirtækjahópar til að gera tilboð í jarðgöng og að reisa stíflu. Af þessum fyrirtækjum varð eitt gjaldþrota og flest hinna skandinavísku stórfyrirtækja sem valin voru ákváðu að hætta þátttöku vegna áhættu eða vegna umhverfissjónarmiða. Við þessar fréttir er í tvígang ákveðið að lengja útboðsfrest, fyrst frá miðjum nóvember til 29. nóvember og síðan til 6. desember. En viti menn. Um leið og tilkynnt er að opna eigi tilboðin 6. desember er skýrt frá því í fjölmiðlum að fulltrúar Alcoa séu væntanlegir til landsins til þess að undirrita uppkast að samningi um orkusölu frá væntanlegri stórvirkjun eystra, sú undirskrift þýði að ekki verði til baka snúið. Takið eftir, að ekki verði til baka snúið. Þetta var staðhæft í fjölmiðlum. Hvað líður þá yfirlýsingum Landsvirkjunar um að nú þurfi að skoða tilboðin í þaula og yfirlýsingum ráðherra einn daginn um að það sé Landsvirkjunar að sýna fram á arðsemi og svo hinn daginn að allt sé klappað og klárt? Eru ríkisstjórnin og forsvarsmenn Landsvirkjunar algerlega búin að tapa áttum? Og hvers konar samningatækni er það að skýra frá því í fjölmiðlum áður en útboð eru opnuð hvað áætlað sé að framkvæmdir kosti?

Herra forseti. Aðkoma ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar að þessum samningum er fullkomlega ótrúverðug. Ég ætla að freista þess að spyrja hæstv. viðskrh. hvað standi til að undirrita með fulltrúum Alcoa á morgun. Getur ráðherrann staðfest fréttir um að eftir þessa undirskrift verði vart aftur snúið? Er það ekki mótsagnakennt að lýsa því yfir áður en útboð eru opnuð að eftir fáeina daga verði skrifað undir samninga sem séu nánast bindandi og staðhæfa síðan á Alþingi, eins og hæstv. utanrrh. gerði, að ákvörðun hafi þegar verið tekin?