Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:16:45 (2604)

2002-12-12 16:16:45# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að það var ekki hæstv. iðnrh. sem stóð fyrir umræddri myndbirtingu af Dettifossi og viðeigandi myndatexta. Það voru aðrir sem stóðu að því.

Herra forseti. Á sínum tíma urðu harðar deilur um svokallaða Eyjabakkavirkjun. Meginþungi þeirra gagnrýnisradda snerist um að verkið skyldi fara í lögformlegt umhverfismat. Jafnframt var margbent á að virkjun við Kárahnjúka væri hagkvæmari, náttúrulegri og skynsamlegri. Málið fór einfaldlega í þann farveg. Þess vegna eru Kárahnjúkar hér til umræðu núna. Unnið hefur verið eftir eðlilegu ferli íslenskra laga samkvæmt ákvörðun yfirgnæfandi meiri hluta hér á Alþingi. Engin framkvæmd á Íslandi hefur hlotið jafnítarlegan undirbúning.

Vitanlega eru skiptar skoðanir um verkið. Kjarni málsins er að undirbúningur allur er samkvæmt lögum en hörðustu andstæðingar halda baráttu sinni áfram. Við því er ekkert að segja og það er eðlilegt nema í þeim tilvikum þegar gripið er til hreinna rangfærslna á vafasömum forsendum. Orð eins og ,,sökkva miðhálendinu``, ,,misþyrming``, ,,óarðbær virkjun`` og þar fram eftir götunum dæma sig sjálf.

Herra forseti. Nú, þegar spáð er vaxandi atvinnuleysi og þörf á erlendum fjárfestingum í hagkerfi okkar er það ábyrgðarleysi að bregðast ekki við. Ákvörðun um Reyðarál liggur ekki fyrir og ekki verður af framkvæmdum nema samningar náist um arðbæra virkjun, arðbæra álverksmiðju, hagstæða fyrir alla. Til allrar hamingju er margt sem bendir til þess að svo muni verða enda hefur Landsvirkjun hingað til ekki staðið í óarðbærum fjárfestingum. Þá mun íslenskt atvinnulíf njóta góðs af, íslenskt efnahagslíf, og þar með lagður grunnur að áframhaldandi uppbyggingu íslenska velferðarkerfisins þar sem hin vistvæna íslenska orka er í aðalhlutverki.