Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:19:06 (2605)

2002-12-12 16:19:06# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Jóhann Ársælsson:

Herra forseti. Kárahnjúkavirkjun er orðin eitt mesta átakamál síðari ára. Þó er mikill stuðningur við málið á hv. Alþingi. Á Austurvelli hefur á þessu hausti verið haldið annað þing umhverfisverndarsinna sem ég ber fulla virðingu fyrir, og skoðunum þeirra. Ég tel hins vegar að það séu engin efni til þess að fresta þessu máli af þeim ástæðum að menn standi í málaferlum. Það mundi einfaldlega hafa það í för með sér að hægt væri að taka mál af þessu tagi í gíslingu.

Ég hef þá skoðun að hér séu ekki á ferðinni meiri umhverfisspjöll en við höfum séð áður, og ef menn skoða Þjórsár-/Tungnaársvæðið og bera það saman við fyrirætlanir við Kárahnjúka sjá þeir að þar eru á ferðinni miklu minni umhverfisspjöll miðað við þá raforku sem verið er að framleiða.

Mig langar til að bera fram spurningu til hæstv. iðnrh. Undanfarna daga hefur það borið við öðru hverju að rætt hefur verið við forráðamenn Reykjavíkurborgar og þar er komin upp í umræðuna gömul hugmynd um að Reykjavíkurborg selji hlut sinn í Landsvirkjun. Er það svo að Reykjavíkurborg geri kröfu um það í tengslum við umfjöllun um þetta mál að tekin verði ákvörðun í þessu máli? Ég spyr að því. Og ég spyr að því hvað hæstv. ráðherra átti við með því að leggja málið, þ.e. Kárahnjúkamálið, fyrir Alþingi. Hvað er það sem á eftir að fjalla um á hv. Alþingi varðandi þetta mál? Ég veit ekki betur en að búið sé að samþykkja hér virkjun og það er búið að samþykkja ferlið sem álverið fór í gegnum. Hvað er það sem á að leggja fyrir hv. Alþingi?