Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:23:50 (2607)

2002-12-12 16:23:50# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var svo sem eftir öðru að hæstv. ráðherra notaði svo til allan ræðutíma sinn hér til afar ómaklegra árása á fjarstadda einstaklinga sem ekki geta svarað fyrir sig. Hæstv. ráðherra og reyndar fleiri hv. þm. nota orðbragð eins og ,,svokallaðir náttúruverndarsinnar``, ,,svokölluð náttúruverndarsamtök``. Í reynd er þessi herferð Framsfl. gegn umhverfisverndarfólki og vísindamönnum og vísindasamfélaginu orðin afar athyglisverð. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en herferð, sérstaka herferð Framsfl., þar sem verið er að reyna að reyta æruna af nafngreindum vísindamönnum og baráttufólki fyrir umhverfisvernd. Og það leggst lítið fyrir slíka kappa sem ekki hafa skárri málstað og skárri rök fyrir afstöðu sinni en ætla má af þessari framgöngu.

Yfirlýsingar ráðherra og ríkisstjórnar í þessu máli eru mjög mótsagnakenndar og ótrúverðugar. Einu sinni var lofað úr þessum ræðustóli að aldrei yrði ráðist í neinar framkvæmdir fyrr en allir samningar lægju fyrir og væru uppi á borðinu og hefðu verið kynntir Alþingi. Annað lítur nú dagsins ljós. Ýmist er sagt að það sé búið að ákveða að ráðast í þessar framkvæmdir eða það er sagt að ekkert verði ákveðið fyrr en allt hafi verið undirritað og metið í ljósi þess.

Mergurinn málsins er hins vegar sá að vart verður við ört vaxandi efasemdir úti í atvinnu- og viðskiptalífinu um þessa risafjárfestingu með tilheyrandi áhættu. Atvinnulífið og sérstaklega útflutningsgreinarnar eru að átta sig á því að hækkandi vextir, styrking á gengi krónunnar og versnandi starfsskilyrði hins almenna atvinnulífs verða gríðarlegur fórnarkostnaður sem óskyldir aðilar munu þurfa að bera verði ráðist í þessa framkvæmd. Og það skyldi nú ekki vera að óróleiki hæstvirtra ráðherra stafi af því að þau finna að það er að fjara undan stuðningi við þetta mál, og þess vegna séu þau á góðri leið með að falla á tíma með að berja þetta í gegn.