Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:26:08 (2608)

2002-12-12 16:26:08# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar minnti um margt á ekkifréttatíma Hauks Haukssonar þar sem fullyrðingar, klisjur (Gripið fram í: Þú ert alveg eins og hann.) og þess háttar er tekið úr samhengi, og það var nákvæmlega það sem hv. þm. gerði. Það hefur margoft komið fram að ekki verður ráðist í virkjunarframkvæmdir nema þær standi undir sér og arðsemi virkjunarinnar liggi fyrir. Það er alveg ljóst. Það hefur margoft komið fram úr þessum ræðustóli og annars staðar.

Hér er vissulega um gríðarlegar framkvæmdir að ræða og við erum í raun og veru að færa ákveðnar náttúrufórnir. Ég er alveg sammála mönnum um að við erum að færa þarna ákveðnar fórnir. (Gripið fram í: Ert þú ...?) En þessar fórnir eiga líka eftir að hafa gríðarleg áhrif á hagkerfi Íslendinga. Það hafa kannski ekki alveg allir vinstri grænir gert sér grein fyrir því.

Það kom líka fram áðan að þessar framkvæmdir eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á mannlíf og atvinnustarfsemi á Austurlandi. Það er eins og ágætir félagar okkar í Vinstri grænum geri sér ekki grein fyrir því.

Hver er þá atvinnustefna þessara félaga okkar í Vinstri grænum? Hún er eitthvað á þessa leið: Við þurfum að gera eitthvað annað. (SJS: Hvað með fjallagrösin?) Það er nákvæmlega það sem ég er farinn að trúa, að hv. þm. sem gapir hér og galar fram í sé farinn að trúa því að við getum lifað á fjallagrösum og hundasúrum. (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Vei.) (Gripið fram í: Hann er hundasúrumaður.)

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að ræðutími hvers þingmanns er tvær mínútur og veitir ekki af þannig að ég bið þingmenn, þó að gaman sé að frammíköllum, að stilla þeim í hóf.)