Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:28:13 (2609)

2002-12-12 16:28:13# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við höfum fengið sýnishorn af málefnalegri aðkomu Framsfl. að þessu máli. Hæstv. ráðherra segir að ekki sé verið að semja um Kárahnjúkavirkjun. Hæstv. ráðherra segir að undirskriftin með Alcoa á morgun sé ekki skuldbindandi. Jafnframt er staðhæft að eftir að menn hafi sett stafi sína undir drögin verði vart aftur snúið og hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. staðhæfði hér á þingi að málið væri klappað og klárt. Allt ber að sama brunni. Það skal virkja hvað sem það kostar. Hversu mikið glapræði sem það er, þá skal virkja.

Við höfum náttúrlega reynslu af undirskriftum. Hver man ekki eftir Keilisnesi? Var ekki alltaf verið að undirrita þar við dúkað borð og kertaljós? Það mál gufaði hins vegar upp vegna þess að það stóðst ekki á endanum.

Herra forseti. Það er með ólíkindum hve mótsagnakenndur og misvísandi málflutningur ríkisstjórnarinnar og forsvarsmanna Landsvirkjunar er. Einn daginn á að grandskoða allar forsendur og samningstilboð og hinn daginn er staðhæft að allt sé klappað og klárt. Það stendur ekki steinn yfir steini hvað varðar aðkomu fulltrúa þjóðarinnar að málinu. Og hvers konar samningamenn eru hér á ferðinni? Hvernig er haldið á hagsmunamálum okkar? Hvað hinar efnahagslegu forsendur snertir hefur aldrei tekist að fá hæstv. iðnrh., eða þess vegna nokkurn fulltrúa ríkisstjórnarinnar, til að ræða þær þrátt fyrir ítarlegar tilraunir á Alþingi og á opinberum vettvangi. Þegar að hæstv. ráðherra er sótt hvað þetta varðar er ábyrgðinni vísað yfir á Landsvirkjun. Þegar annað hentar er sagt að Landsvirkjun skuli halda sig á mottunni. Og ég ætla að vitna í ummæli hæstv. ráðherra frá 19. júlí í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: ,,Friðrik kemst því ekki upp með að stoppa málið.`` Með öðrum orðum, herra forseti, það skal virkja hvað sem það kostar og hversu vitlaust sem það er.