Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:46:42 (2622)

2002-12-12 16:46:42# 128. lþ. 54.26 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv. 130/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að leggja til að færa heimild af síðasta fiskveiðiári til að nýta af núverandi fiskveiðiári svokallaða potta, þ.e. í þessu tilfelli pott sem ákveðið er að verði til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarúvegi. Út af fyrir sig er ekki neitt sérstakt við það að athuga þó menn færi þær 500 lestir yfir til þess fiskveiðiárs sem nú er að líða úr því þær voru ekki notaðar á síðasta fiskveiðiári eins og lög stóðu til. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, herra forseti, að þegar við tölum almennt um aðgerðir til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, þá lít ég svo á að þær breytingar sem við höfum verið að gera á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum, m.a. með kvótasetningunni á smábátana, sé tilbúinn vandi og í raun og veru sé verið að styðja þau byggðarlög sem hafa lent í vanda vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Með því að fara þá leið að kvótasetja aflann í smábátakerfinu, þ.e. þær tegundir sem áður voru utan kvóta t.d. eins og ýsa, ufsi og steinbítur og fleiri tegundir, til viðbótar við það sem sæmileg sátt var orðin um að kvóti væri á þorski og í svokölluðu þorskaflahámarkskerfi og breyta því kerfi í það sem síðan hefur verið nefnt krókaaflahlutdeildarkerfi.

Ekki er hægt að ljúka þessari umræðu, herra forseti, án þess að menn fari nokkrum orðum um þá stefnumótun og þær framkvæmdir að þau manngerðu vandamál sem búin hafa verið til með þessari lagasetningu séu leyst með pottum, sem síðan eins og í þessu tilfelli tókst ekki að nota á síðasta ári og eru svo færðir yfir á þetta fiskveiðiár og gera það að verkum að nú eru 2.000 lestir ætlaðar til sérstakrar úthlutunar til að taka á vandamálum sem búin voru til.

Út af fyrir sig er ekki hægt að leggjast gegn því að þær aflaheimildir sem settar hafa verið í þessa potta séu nýttar, því þær laga eitthvað þann vanda sem búinn hefur verið til. Það breytir hins vegar ekki þeirri pólitísku stefnu núverandi ríkisstjórnar að færa þetta mál allt í þann farveg að kvótasetja hverja einustu fisktegund inn á hvaða stærðir fiskiskipa sem er og síðan önnur þau atriði sem gerð hafa verið í þessu sambandi. Gerðar hafa t.d. verið þær ráðstafanir að stækka megi skipin í smábátakerfinu. Núna er heimilt að fara með þau upp í 15 lestir og út af fyrir sig gátu verið rök fyrir því að fara þá leið.

Ég óttast hins vegar, herra forseti, að m.a. sú aðgerð og síðan alveg sérstaklega sú aðgerð að hafa farið með smábátaflotann inn í kvótastýrt fiskveiðikerfi, með framseljanlegum heimildum, með óheftu leiguframsali að öðru leyti en því að það er eins og almenna reglan um 50 prósentin, þá verði það til þess í framtíðinni að þessi kerfi, fiskveiðikerfi, ef svo illa skyldi vilja til að núverandi ríkisstjórn héldi velli eftir næstu kosningar, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki og það verði gæfa þjóðarinnar að ...

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Já, herra forseti.

(Forseti (HBl): Má ég biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni um hríð. Honum verður gefið orðið síðar í kvöld. Þakka fyrir það. Þessu máli er frestað um hríð.)