Birting laga og stjórnvaldaerinda

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:56:07 (2627)

2002-12-12 16:56:07# 128. lþ. 54.29 fundur 352. mál: #A birting laga og stjórnvaldaerinda# (Lögbirtingablaðið) frv. 165/2002, Frsm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:56]

Frsm. allshn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64 16. desember 1943. Þetta er nál. frá allshn. en ég tók þátt í störfum allshn. í forföllum.

Frumvarpið er afrakstur vinnu nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 22. september 2000 til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Vinna nefndarinnar leiddi til þess að frá 1. febrúar sl. hefur Lögbirtingablaðið verið aðgengilegt á netinu á slóðinni www.lagabirting.is samhliða hinni prentuðu útgáfu. Samkvæmt greinargerð sem fylgir frumvarpinu hefur reynslan af útgáfu Lögbirtingablaðsins á netinu verið góð og með henni hefur aðgangur almennings að settum réttarheimildum á netinu batnað til muna. Þá er talið að endurgjaldslaus birting blaðsins á netinu geri það mun aðgengilegra en verið hefur þar sem tæplega 77% landsmanna hafa aðgang að tölvu með nettengingu, samanber niðurstöður rannsóknar frá 2001. Með þessu mun jafnframt sparast umtalsvert fé og útgáfan verða einfaldari og skilvirkari.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Þar sem frumvarpið felur í sér ákveðinn kostnaðarauka fyrir þá sem ekki hafa aðgang að upplýsingum í rafrænu formi leggur nefndin áherslu á að hugað verði að aðgangi almennings að Lögbirtingablaðinu, m.a. í rafrænu formi, á bókasöfnum landsins með vísan til 1. gr. laga nr. 36/1997, um almenningsbókasöfn. Í þeim lögum kemur m.a. fram að hlutverk bókasafna sé að veita fólki greiðan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi.

Katrín Fjeldsted og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi var samþykkur afgreiðslu málsins.

Undir nál. skrifa Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Hjálmar Árnason og Guðjón A. Kristjánsson.