Breyting á XV. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:58:55 (2628)

2002-12-12 16:58:55# 128. lþ. 54.32 fundur 394. mál: #A breyting á XV. viðauka við EES-samninginn# (aðstoð til menntunar, ríkisaðstoð til fyrirtækja) þál., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:58]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002, um breytingu á XV. viðauka (ríkisaðstoð) við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka (ríkisaðstoð) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn þrjár reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Reglugerðirnar fela í sér svokallaðar hópundanþágur frá almennum ákvæðum EES-samningsins um óheimila ríkisaðstoð.

Að mati félagsmálaráðuneytis er talið að innleiðing reglugerða nr. 69/2001 og 70/2001 kalli ekki á lagabreytingar hér á landi. Þá taldi ráðuneytið hugsanlegt að innleiðing ákvæða reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 kallaði á lagabreytingar en á fundi utanríkismálanefndar kom fram hjá fulltrúum utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis að við nánari skoðun málsins hefði komið í ljós að lagabreytinga þyrfti ekki við. Þetta hefur nú verið staðfest með bréfi fjármálaráðuneytisins til utanríkismálanefndar þar sem fram kemur m.a. að það sé sameiginlegur skilningur fjármála- og félagsmálaráðuneytis að lagabreytinga þurfi ekki við.

Utanrmn. leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.