Póstþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 17:06:27 (2632)

2002-12-12 17:06:27# 128. lþ. 54.16 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Komið er til 3. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu. Í 1. og 2. umr. um málið höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gert grein fyrir sjónarmiðum okkar. Við teljum það vera mjög varhugavert að þrýsta póstþjónustunni hér á landi í átt til aukinnar markaðsvæðingar eins og þetta frv. kveður á um. Við höfum bent á það að markaðsvæðing póstþjónustunnar hafi grafið undan rekstrarforsendum Íslandspósts hf. og leitt til þess að póstburðargjöld hafa verið hækkuð óheyrilega.

Þetta gerðist síðast í sumar og leiddi til mótmæla félagasamtaka. Íslandspóstur brást þannig við að bjóða einstökum aðilum til samningaviðræðna um frestun á því að gjaldskráin kæmi að fullu til framkvæmda en jafnframt var látið í ljósi að einvörðungu væri um tímabundna frestun að ræða.

Það er athyglisvert að í þessum viðræðum var tekið fram að samningaviðræður um þessi efni væru bundnar trúnaði. Maður spyr sjálfan sig spurninga á tímum jafnræðisreglna og athugunar samkeppnisyfirvalda á hvers kyns brotum í þeim efnum hvort mönnum finnist yfirleitt eðlilegt að mismuna aðilum með þessum hætti og halda samningaviðræðum leyndum.

Hins vegar er í sjálfu sér ekki við Íslandspóst hf. að sakast varðandi gjaldskrárbreytingarnar, nema síður sé. Þær eru til komnar vegna markaðsvæðingarinnar og Íslandspóstur á í rauninni ekki annarra kosta völ en að hækka gjöldin. Með þessu frv. er haldið áfram út á þessa braut.

Ég forvitnaðist um það fyrir þessa umræðu hvort félagasamtök sem áður hafa látið frá sér heyra teldu einhverjar varanlegar lausnir vera í sjónmáli. Þau kváðu svo ekki vera.

Formaður Landssambands eldri borgara benti mér á í samtali í dag að fyrirsjáanlegt væri að Landssamband eldri borgara yrði að hætta útgáfu á félagsriti sínu ef ekki yrði breyting á þessu.

BSRB ritaði hæstv. samgrh. bréf í haust og hvatti til þess að efnt yrði til samráðs um þetta efni og kallaði til fulltrúa almannasamtaka, verkalýðshreyfingar og annarra félagslegra samtaka. Við fengum þau svör, og þau hafa verið ítrekuð hér á Alþingi, að nefnd hafi þegar verið skipuð til að fjalla um málið og okkur var sagt í fyrirspurnatíma ekki alls fyrir löngu að þessi nefnd ynni ötullega að lausn. Hins vegar er engin lausn greinileg í sjónmáli.

Ég skil það vel að það kunni að vera erfitt að finna á þessu varanlega lausn, ég vil ekkert gera lítið úr því, en hinu furða ég mig á að áfram skuli eftir sem áður haldið á þessari braut og þrengt enn þá meira að Póstinum. Við vitum hvers vegna það er gert, það er vegna þess að þetta byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur sent skipun til Íslands um að breyta póstþjónustunni í þessa veru.

Það sem mér finnst ámælisvert í meðhöndlun þessa máls á Alþingi er að ekki skuli hafa verið kannað hvort ástæða sé til þess að leita eftir undanþágu í okkar stóra og strjálbýla landi. Mér finnst við ekki ganga nógu langt í því að leita eftir undanþágu þegar auðséð er að við tengjumst aðeins að takmörkuðu leyti markaðssvæðinu sem þessar reglugerðir ganga allar út á að samræma.

Ég tek undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni sem hefur sagt á opinberum vettvangi að ástæða hefði verið til að kanna --- og er enn --- hvort Íslendingar eigi ekki að leita undanþágu varðandi raforkumálin. Hvers vegna í ósköpunum ættu sömu reglur að gilda á Vestfjörðum og í Munchen svo dæmi sé tekið þótt ég ætli ekki heldur að skrifa upp á markaðsvæðinguna í Munchen.

Það er svolítið merkilegt hve óskaplega miðstýrt bákn Evrópusambandið er, gengur miklu lengra í miðstýringarátt en gerist t.d. í Bandaríkjunum. Einstök ríki í Bandaríkjunum hafa sjálfdæmi um það hvernig þau skipa raforkumálum sínum, svo dæmi sé tekið, og einstakar borgir. Los Angeles slapp við raforkuhneykslið í Kaliforníu á liðnum missirum, einfaldlega vegna þess að rafveitan þar var í eigu borgarinnar og rekin á hennar vegum. Þannig er þetta í öðrum hlutum Bandaríkjanna einnig. Það er margbreytilegt kerfi.

Hins vegar er það víða markaðsvætt og lýtur markaðslögmálum. Krafan hefur þá komið á móti um að geirinn allur sé opinn almenningi um upplýsingar, um raforkuverð og allt sem lýtur að rekstri þessara stofnana. Hér á landi er þetta allt saman hins vegar niðurnjörvað og lokað.

Þetta er nú útúrdúr, hæstv. forseti. Ég er aðeins að vekja máls á því að eðlilegt hefði verið að leita eftir undanþágu varðandi þessar breytingar á póstþjónustunni sem ég er sannfærður um, og við erum sannfærð um í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að muni þrengja enn að Íslandspósti hf., skapa honum erfiðari rekstrarforsendur. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Þess vegna erum við andvíg þessum lagabreytingum.