Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:07:17 (2638)

2002-12-12 20:07:17# 128. lþ. 55.18 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv. 162/2002, Frsm. minni hluta ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:07]

Frsm. minni hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Í 1. gr. frv. til laga um úrvinnslugjald segir að markmið þeirra sé að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna. Minni hlutanum blandast ekki hugur um að þess sé þörf að setja slíkt ákvæði í lög og skapa hagræna hvata til þess að minnka magn úrgangs, auk þess að stórauka endurnýtingu þess úrgangs sem hægt er að endurvinna. Því styður minni hlutinn markmið þessarar lagasetningar og þá hugmyndafræði sem að baki henni liggur. Þá gerir hann heldur ekki athugasemdir við þá aðferðafræði sem lögð er til, þ.e. að flokka vörurnar sem úrvinnslugjald er lagt á eftir tollskrárnúmerum.

Hins vegar gerum við veigamiklar athugasemdir við ýmsa efnisþætti frv. og auk þess er dregið í efa að það tryggi að umhverfisvernd og hagsmunir neytenda verði ávallt höfð í forgrunni í stjórn hinnar nýju ríkisstofnunar, Úrvinnslusjóðs, sem frv. þetta kveður á um að setja á fót.

Fyrst skal nefna skipun stjórnar Úrvinnslusjóðs. Þar eiga samtök neytenda og áhugafólks um umhverfisvernd ekki að fá sæti. Stjórnin mun hins vegar skipuð fulltrúum samtaka atvinnurekenda, auk eins fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með þessari skipan er verulega hallað á hagsmuni hins almenna borgara í landinu og ekki tekið mið af Árósasáttmálanum um mikilvægi samstarfs ríkisins og frjálsra félagasamtaka á þessu sviði. Minni hlutinn lýsir vonbrigðum sínum með að ekki var talin þörf á að tryggja fulltrúum náttúruverndar og neytendaréttar fulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs.

Þetta er ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess veigamikla hlutverks sem stjórn sjóðsins er fengið samkvæmt frv. en í 17. gr. þess segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnin skal eftir því sem við á leggja fram tillögu til umhverfisráðherra um breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds, nýjar gjaldskyldar vörur og fjárhæð úrvinnslugjalds á þær.``

Stjórnin mun því hafa stefnumótandi ákvörðunarvald um úrvinnslu úrgangs hér á landi. Að sjálfsögðu ber henni að taka mið af skuldbindingum og stefnumörkun stjórnvalda í úrgangsmálum en sú stefnumörkun liggur ekki fyrir og því er ljóst að stjórnin mun hafa mikil áhrif á val vöruflokka sem leggja á úrvinnslugjald á.

Sú skipan sem stjórnvöld leggja því hér til ber ekki vott um frumkvæðisvilja frá þeirra hendi. Hér eru öllu frekar á ferð viðbrögð við kröfum Evrópusambandsins og þeim er svarað með því að vísa frumkvæðinu og stefnumörkuninni til fulltrúa atvinnulífsins. Ráðuneyti umhverfismála hefur annaðhvort ekki burði til að axla ábyrgð á stefnumörkuninni eða hefur ekki pólitískan vilja til þess. Hvorugt er gott.

Þá skýtur skökku við, herra forseti, að veigamiklir vöruflokkar sem ætla má að leggja þyrfti úrvinnslugjald á, svo sem dagblaðapappír og kælitæki, eru ekki hafðir með. Meiri hlutinn leggur til að veiðarfæri úr gerviefnum verði gjaldskyld og styðjum við í minni hlutanum þá brtt.

Niðurstaða minni hlutans er að með lögleiðingu úrvinnslugjalds sé stigið skref í rétta átt við beitingu hagrænna stjórntækja í umhverfisvernd hér á landi og því munum við ekki leggjast gegn afgreiðslu frv. Hins vegar mun minni hlutinn ekki greiða atkvæði með því í ljósi þeirra athugasemda sem ég hef rakið hér, herra forseti.

Undir þetta minnihlutaálit skrifar sú sem hér stendur, Þórunn Sveinbjarnardóttir, og Jóhann Ársælsson, hv. þm. Samfylkingarinnar.