Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:12:57 (2639)

2002-12-12 20:12:57# 128. lþ. 55.18 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv. 162/2002, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:12]

Ásta Möller:

Herra forseti. Rétt í þessu var að ljúka fundi í heilbrn. þannig að ég gat ekki verið viðstödd þá umræðu sem var á undan en ég vildi í örfáum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á málinu.

Hérna erum við með frv. til laga um úrvinnslugjald sem kom reyndar fyrir stuttu inn í þingið og fékk nokkuð góða umfjöllun í nefndinni. Mjög margir gestir komu á fund nefndarinnar en því miður gat ég ekki verið á öllum þeim fundum af ýmsum ástæðum.

Fyrirvarar mínir varðandi þetta frv. felast fyrst og fremst í því að ég tel að það hefði átt að fá meiri samsvörun á þessu frv. og því sem liggur þegar fyrir umhvn., frv. um urðun sorps og urðun úrgangs. Ég hefði viljað fá að skoða það frv. í meira samhengi við það frv. sem hér er til umfjöllunar.

Síðan komu ákveðnar athugasemdir, bæði frá Sorpu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um aðra skipan þessara mála, um að leggja úrvinnslugjald á mjög breiðan gjaldstofn. Ég hefði gjarnan viljað skoða það mál frekar og fá frekari upplýsingar um hvernig þeim málum er háttað erlendis. Hins vegar ákvað ég að þar sem mér gafst ekki kostur á að sitja alla fundina, reyndar ekki af öðrum ástæðum en mínum eigin, og fannst ég ekki fá þá nauðsynlegu yfirsýn sem ég taldi mig þurfa að hafa til að vera með fulla sannfæringu fyrir þessu máli ákvað ég að vera með fyrirvara á því.

Sú niðurstaða sem er fengin er stutt skref í ákveðna átt og eins og kemur fram í nál. gefst í framtíðinni kostur á að skoða fleiri vöruflokka sem fara undir úrvinnslugjald og þá gefst jafnframt tækifæri til að endurmeta reynsluna af þessari skipan mála.

Herra forseti. Ég vildi sem sagt í örfáum orðum gera grein fyrir fyrirvara mínum í þessu máli þar sem hann kom ekki fram í nál. sjálfu.