Verkefni Umhverfisstofnunar

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:34:03 (2643)

2002-12-12 20:34:03# 128. lþ. 55.19 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:34]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við skrifum undir þetta meirihlutaálit með fyrirvara, sá sem hér stendur og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Sá fyrirvari lýtur í ýmsu að svipuðum athugasemdum og komu fram í máli síðasta hv. ræðumanns. Það verður að segjast að það hefði mátt vinna að þessu máli faglegar. Þá á ég sérstaklega við fyrir ári síðan þegar málið var lagt fyrir þingið og það keyrt í gegn með þeim hraða sem þá var.

Það var afsakað með því að nýtt mál yrði flutt á þessu hausti og þessum málefnum þá komið í þann farveg sem ætti að gera. En þá gerist alveg sama sagan. Málið kemur það seint inn að ekki er tími til að vinna það eðlilega. Það er náttúrlega ekki hægt annað en að gera athugasemdir við slíka hluti.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst að mörgu leyti að tekist hafi ágætlega til við málið eins og það var lagt fyrir þó að að ósekju hefði mátt hafa betri tíma til þess að vinna það í nefndinni. Ýmsir hlutir hafa verið lagfærðir og flest af því sem kemur fram í frv. eru eðlilegar breytingar sem koma vegna þessarar stofnunar og vegna þess að verið er að færa saman starfsemi á vegum ráðuneytisins.

Ég verð þó að segja að mér finnst svolítið undarlegt að á sama tíma og við fjöllum um þetta frv. um Umhverfisstofnun, þar sem verið er að færa sama starfsemi til hagræðis og til þess að hafa betri yfirsýn um þau málefni sem undir ráðuneytið heyra þá erum við jafnframt að fjalla --- á sama hraða reyndar líka --- um nýja ríkisstofnun sem hæstv. ráðherra beitir sér fyrir að stofna. Úrvinnslugjald sem hér var rætt á undan er auðvitað bara ný ríkisstofnun með sérstjórn. Ég tók ekki til máls í því máli en hefði kannski átt að gera það af því að ýmsilegt er athugavert við það. Mest finnst mér þó vera athugavert að ráðuneytið og hæstv. ráðherra skuli ekki ætla sér forustuna við stefnumótun hvað varðar þá hluti sem þarna eru á ferðinni. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ekki vera mikil reisn yfir því.

En þó að komið hafi verið til móts við margar af þeim athugasemdum sem komu við þetta frv. sem hér er verið að fjalla um þá var samt engan veginn brugðist við þeim öllum. Ég verð að segja það eins og er að ég gagnrýni það að ekki var brugðist við athugasemdum Náttúrufræðistofnunar um 40. gr. sem fjallaði um það hvernig fara ætti með þann sjóð sem kemur af veiðikortunum. Ég tel að þar hefðu menn átt að hlusta á rödd Náttúrufræðistofnunar þar sem bent var á að í Náttúrufræðistofnuninni er auðvitað þekkingin á þessum málum og þaðan er eðlilegt að tillögur um rannsóknarverkefni komi. Ekki er gert ráð fyrir því að það sé þekking hjá starfsmönnum Umhverfisstofnunarinnar sjálfrar á þeim rannsóknarverkefnum sem fram að þessu hafa verið í gangi vegna þessa sjóðs. Þess vegna er full ástæða til að gagnrýna það að ekki skuli hafa verið brugðist við þeim ábendingum, skilmerkilegum og sannfærandi ábendingum, sem komu frá Náttúrufræðistofnuninni hvað þetta varðar.

Ég býst við því að menn geti skoðað málið betur og vonandi gera menn það. En ég vil árétta við þessa umræðu að málið verði íhugað nánar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að hér sé flest til bóta. En það verður líka að koma hverju er ábótavant.