Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:47:35 (2649)

2002-12-12 20:47:35# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, EMS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:47]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að fagna framlagningu þessa frv. þótt það hafi seint komið hér í sali, og verður að fagna því hversu vel er brugðist við óskum bæjarstjórnar Akureyrar um að flytja frv. þannig að hún geti framfylgt þeim óskum sínum að láta þetta fyrirtæki taka til starfa 1. janúar 2003.

Frumvarp þetta byggir á öðrum frv. sem áður hafa verið lögð hér fram og samþykkt, þ.e. í fyrsta lagi varðandi hlutafélagið um Orkubú Vestfjarða og um Hitaveitu Suðurnesja og í raun sambærilegt og lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Að því leytinu til er ekki um flókið mál að ræða og þar af leiðandi ætti það að geta farið nokkuð hratt í gegnum nefnd því þar á það að vera nokkuð kunnugt.

Aðalatriði í mínum huga í þessu máli er að verið er að bregðast við beiðni sveitarfélags og það er að mínu mati eðlilegt að sveitarfélag sem stendur að fyrirtæki eins og Norðurorku, eigi að ráða því í hvaða formi það vill veita slíka þjónustu. Hér er það bæjarstjórn Akureyrar sem óskar eftir því að þessu sé breytt í hlutafélag, m.a. til þess að efla fyrirtækið og skapa aukið svigrúm til þess að efla það. Þess vegna er lykilatriði að við á Alþingi komum ekki í veg fyrir vilja bæjarstjórnar, virðum í raun sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins og þess vegna, herra forseti, hvet ég hv. iðnn. til þess að hraða störfum sínum og koma frv. hér í gegnum sali sem allra fyrst. Það mun ekki skorta, herra forseti, stuðning þingmanna Samfylkingarinnar til þess að flýta meðferð málsins.