Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:12:23 (2655)

2002-12-12 21:12:23# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:12]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi leiðrétta þann misskilning að ekki sé hægt að selja sameignarfyrirtæki. Auðvitað er það hægt, það er ekkert sem bannar að selja Orkuveitu Reykjavíkur þótt hún sé sameignarfyrirtæki. Það versta fyrir Orkuveitu Reykjavíkur er að hún skuli ekki vera hlutafélag sem er öflugasta rekstrarformið þegar menn stunda rekstur eins og þann sem orkufyrirtækin stunda. Það er veika hliðin á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Nú kemur þetta fyrirtæki og verður hlutafélag. Orkuveitan er að keppa við Hitaveitu Suðurnesja sem er hlutafélag þannig að Orkuveitan er í umhverfi sem er þannig að keppinautarnir starfa við hinar bestu aðstæður og rekstrarfyrirkomulag. En vegna þess að vinstri grænir komu með skammsýni sinni í veg fyrir að unnt væri að breyta Orkuveitunni í hlutafélag stendur hún höllum fæti. Þetta eru staðreyndir sem menn eiga að horfast í augu við og vinstri grænir bera ábyrgð á.