Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:13:26 (2656)

2002-12-12 21:13:26# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:13]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skoðun okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að rekstur hitaveitna og náttúrlega vatnsveitna eins og er samkvæmt lögunum eigi að vera í opinberri eigu. Við viljum félagslegt rekstrarform og teljum að það tryggi best, þrátt fyrir allt, að áfram verði sú staða uppi að almenningur eigi þessar veitur. Það er út frá þeirri hugsun sem við vinnum í sambandi við form á fyrirtækjunum.

Eins og dæmin sanna opnar hlutafélagaformið mönnum möguleika á örskömmum tíma til þess að selja aðilum úti í bæ, einkavæða. Það er meginhugsun okkar að stoðkerfi landsins sé í félagslegri eign, opinberri eign ríkis og sveitarfélaga, og við teljum öruggara að vera með þetta rekstrarform, sameignarfélag, heldur en hlutafélagsformið í ljósi sögunnar hvað þetta varðar.