Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:15:04 (2657)

2002-12-12 21:15:04# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Björn Bjarnason sleppti honum. Hann vék að deilum í Reykjavík um rekstrarform á orkuveitunum. Hann staðhæfði að það væri mál manna í Reykjavík, annarra en vinstri grænna, og mál manna víðs vegar um heiminn að hlutafélagsformið væri heppilegast. Ég er ósammála þessari staðhæfingu og ætla að nefna tvö atriði því til stuðnings.

Í fyrsta lagi er að koma á daginn, ég mun gera nánar grein fyrir því við 2. umr. málsins, að orkufyrirtæki sem hafa verið markaðsvædd en hafa skapað sér einokunarstöðu, sem gerist víðast hvar, hafa sprengt upp orkuverðið. Núna eru t.d. fréttir um það í norskum fjölmiðlum hvernig sprenging hefur orðið í orkugeiranum þar í kjölfar svipaðra breytinga og íslensk stjórnvöld gangast fyrir hér. Frá sjónarhóli notandans, orkukaupandans, er þetta því málum blandið.

Hitt atriðið lýtur að stöðugleikanum. Ef við lítum á hvað hefur verið að gerast í orkugeiranum víðs vegar um heim þá hefur mikill óstöðugleiki einkennt hann. Það þarf ekki að alhæfa út frá Enron- fyrirtækinu í Kaliforníu. Þar var glæpsamlegt athæfi á ferðinni. Engu að síður sýnir það okkur fram á hvað getur gerst þegar óprúttnir aðilar komast í valdastöður hjá þessum fyrirtækjum.

Nú fréttist af mjög miklum erfiðleikum hjá stærsta breska orkufyrirtækinu og okkur berast víða að fréttir af óstöðugleika. Það er þetta sem veldur því að í Bandaríkjunum, kannski síður í Evrópu, hafa vaknað efasemdir um hlutafélagsformið í almannaþjónustu. Hlutafélagsformið byggir að sjálfsögðu á því að þar komi hluthafar að. Við höfum orðið vitni að almennu millibilsástandi hér á landi, þar sem einn hluthafi situr á einu hlutabréfi eins og gerðist með Póst og síma um skeið. Þróunin er sú að farið er með hlutina út á markað og fyrirtækið markaðsvætt. En hlutabréfamarkaðinn einkennist af óstöðugleika. Eigendurnir leita eftir hámarksarði og eru reiðubúnir að yfirgefa fyrirtækið, stofnunina, starfsemina, ef meiri arðsemi er að vænta annars staðar. Hlutafélagsformið býður þannig í sjálfu sér upp á óstöðugleika. Mér finnst það alla vega kalla á málefnaleg andsvör ef menn telja þetta rangt vegna þess að staðreyndirnar tala þessu máli, þ.e. gagnvart notandanum, orkukaupandanum. Þetta hefur leitt til hærra orkuverðs og óstöðugleiki fyrirtækjanna eykst. Þetta eru staðreyndir.

Það er vegna þessa sem menn hafa vaxandi efasemdir um að hlutafélagsformið eigi rétt á sér í almannaþjónustu, þ.e. fyrirtækjum eða starfsemi sem þarf alltaf að vera til staðar og þarf að vera traust. Menn hafa efasemdir um að rétt sé að fara í breytingar að þessu leyti.

Ég leyfi mér að spyrja: Er ekki hæstv. iðnrh. við þessa umræðu?

(Forseti (ÍGP): Forseti sér í tölvu sinni að hæstv. iðn.- og viðskrh. er skammt undan.)

Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra hlýddi á mál mitt. Hér vorum við að ræða hvort hlutafélagsformið væri heppilegasta formið í almannaþjónustu, þar með talið í stoðfyrirtækjum í samfélaginu á borð við orkufyrirtæki. Ég hef miklar efasemdir um það, tel að þetta geti komið orkukaupandanum í koll og kalli á óstöðugleika í þessari grein vegna þess að hluthafar, eðli máls samkvæmt, leita eftir arðsvon þar sem hún er mest og eru tilbúnir að yfirgefa fyrirtækin eða stofnanirnar þegar þær þurfa mest á þeim að halda.

Síðan verður ákveðin breyting á þankagangi við þessar kerfisbreytingar. Hlutafélagi er fyrst og fremst ætlað að sækja arð. Það er grundvallarmunur á því annars vegar og hinu að veita þjónustu. Ég tek eftir því að í 3. gr. þessa frv. er einmitt vísað til þess að fyrirtækið eigi hægara um vik með að hella sér út í aðra viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Með öðrum orðum á að gera þessi grundvallarþjónustufyrirtæki í landinu að almennum viðskipta- og fjármálastofnunum. Við höfum séð þetta gerast hér í Reykjavík hjá Orkuveitunni. Ég hef haft miklar efasemdir um ýmislegt sem þar hefur verið gert í þá veru, sannast sagna. Ég tel að þessar grundvallarstofnanir eigi fyrst og fremst að sinna tiltölulega þröngt afmörkuðu þjónustuhlutverki. Síðan er ekkert óeðlilegt að leitað sé út á markað um einstaka þætti starfseminnar.

Hæstv. ráðherra kom upp í andsvari áðan og vildi gera lítið úr andstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gegn þessari krefisbreytingu. Í grundvallaratriðum sagði hæstv. ráðherra að þetta væri ósk heimamanna og þarna væri fyrst og fremst um formbreytingu að ræða, ef ég skildi það rétt. Hvers vegna ættum við að standa gegn því að lýðræðislegar óskir úr héraði næðu fram að ganga? Það er alveg eðlilegt að menn spyrji á þennan hátt. Ég tel hins vegar að málið sé miklu flóknara en þetta. Við þurfum að horfa, ekki bara á nærumhverfið heldur þurfum við að hafa hliðsjón af skuldbindingum og samningum sem við erum að gera á alþjóðavísu. Þar vísa ég sérstaklega til GATS-samninganna, General Agreement on Trade in Services eins og þeir heita á ensku, sem eru á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Þar er unnið að því að markaðsvæða þjónustustarfsemi. Menn takast á um hve langt skuli gengið í að skilgreina þjónustu. Á að einskorða það við banka og tryggingar eða á einnig að fara inn í samfélagsþjónustu, m.a. af þessu tagi?

Evrópusambandið, sem gerir flest sitt í leyni bak við tjöldin, hefur farið þess á leit við viðskiptaaðila sína, t.d. Kanada, að þeir einkavæði vatnsveitur sínar. Þetta var upplýst í Guardian 17. apríl sl. og var mikið uppistand í Brussel þegar upplýst var hvað menn voru að makka þar á bak við tjöldin.

Við erum núna stödd þar í ferlinu hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni að einstök ríki eiga að nálgast viðskiptaaðila, önnur viðskiptalönd, og setja fram óskir um hvað þau vilji markaðsvæða, færa yfir á markað. Óskað hefur verið eftir því við utanrrn. hér að fá upplýsingar um hvaða kröfur hafa verið reistar á hendur Íslendingum. Bandaríkjamenn og Japanir hafa sett fram köfur en það fæst ekki upplýst hverjar þær eru. Þetta er alla vega að gerast.

Á grundvelli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru menn síðan að koma á samkomulagsneti um hvað eigi að vera á markaði. Grunnurinn sem menn hafa sett hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni og unnið hefur verið að allar götur frá 1994 er að skapa almennan ramma um markaðsvæðingu. Síðan ákveða ríkisstjórnir hver fyrir sig hvað þær eru tilbúnar að færa inn í þennan ramma. Því miður held ég að Íslendingar hafi þarna sofið á verðinum. Ég óttast það, t.d. með vatnið. Mér sýnist, af þeim athugunum sem ég hef gert á málinu, að við höfum ekki verið nægilega vakandi. En þegar við höfum undirgengist markaðsvæðingu á tilteknum sviðum þá skiptir öllu máli hvaða form er á starfseminni. Um leið og hún er markaðsvædd, gerð að markaðsfyrirtæki, hlutafélagi, þurfa menn að undirgangast þessar reglur. Þess vegna er þetta ekki einkamál heimamanna og snýst ekki bara um formbreytingu vegna þess að um leið og við erum búin að setja starfsemina á markað þá lýtur hún þessum reglum.

Menn hafa óttast, fari þeir með skólakerfið inn á þessa braut og undanþiggi skóla undanþáguákvæðum í GATS-samningunum, að hugsanlega yrði bannað að mismuna skólum eftir því hvort þeir eru reknir á vegum sveitarfélaga og ríkis annars vegar eða einkaskólar hins vegar. Ein af kröfunum sem Bandaríkjamenn hafa verið að reisa núna í ferlinu sem ég vék að áðan er einmitt einkavæðing á skólakerfinu. Þeir segja að vísu að þeirra kröfur séu einskorðaðar við háskólastig og það stig þar sem einkarekstur í skólum sé við lýði. Það sem ég er að reyna að sýna fram á er að þessi formbreyting skiptir máli þegar við erum komin inn í þetta alþjóðlega samningaumhverfi. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því að það sé mjög vafasamt að gera þetta.

Síðan eru ýmsir kostir í stöðunni. Auðvitað þarf að búa svo um hnútana að fyrirtæki eða stofnanir í þessum geira geti sameinast eða efnt til samstarfs eins og gerst hefur hér á suðvesturhorninu, Orkuveitan í Reykjavík hefur efnt til samstarfs við orkuveituna á Vesturlandi og víðar sem er hið besta mál. Sá kostur sem ég tel að ætti að fara, það skipulagsform sem ég tel að væri heppilegast, er að stofna byggðasamlag um þjónustustarfsemi af þessu tagi.

Það er alveg rétt sem fram kom hér áðan að í Reykjavík varð ofan á að stofna sameignarfélag um orkuveiturnar. Ég tel að það hafi verið lakari kostur. Ég held að menn hafi flýtt sér einum of þegar frv. þar að lútandi var keyrt hér í gegnum þingið rétt fyrir síðustu áramót. Ef ég man rétt var það gert rétt fyrir síðustu áramót. Þá var sá háttur hafður á sem nú er einnig hafður á. Á síðustu dögum eða klukkustundum þingsins var frv. lagt fram og sagt: Þetta er frumvarp sem byggir á samkomulagi heimamanna. Í því tilviki ætla ég ekki að álasa þinginu vegna þess að menn höfðu trú á að svo væri. Ég tel hins vegar að samkomulagið hafi ekki verið frágengið þegar það var sett í gegnum þingið og harma að þetta skuli hafa verið gert með þessum hætti. Hins vegar er sameignarfélag ekki slæmur kostur og ekki saman að jafna sameignarfélagi og hlutafélagi ef út í þá sálma er farið.

[21:30]

En þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að ég tel rök hæstv. viðskrh. ekki ganga upp. Ég tel þau ekki ganga upp í fyrsta lagi varðandi hlutafélagsformið. Það hefur sýnt sig að vera verri kostur fyrir kaupanda orkunnar. Hún er á uppleið. Það hefur orðið verðsprenging í Noregi. Það er verri kostur fyrir starfsemina að hafa óstöðuga hlutafjáreigendur sem hlaupa alltaf eftir arðsvon þar sem hún gerist hæst. Síðan ætla ég að leyfa mér að nefna annað, þ.e. tilkostnaðinn við samkeppni eða ímyndaða samkeppni, vegna þess að í þessum geira er hún yfirleitt ekki til staðar.

Við þurfum ekki að fara annað en til Bandaríkjanna til að sjá hver einokun er í raforkugeiranum þar sem þó víða er mikið frelsi í þessum efnum. Þetta eru fyrirtæki sem hasla sér völl á tilteknu landsvæði og hafa þar nánast einokunarstöðu. Þar sem einhver samkeppni er fyrir hendi jú, þar verða til fleiri fyrirtæki. En hver er tilkostnaðurinn við það að efna til þessarar samkeppni? Hver var tilkostnaðurinn við það að efna til samkeppni á símamarkaði í Bretlandi, svo dæmi sé tekið? Hafa menn komið á Piccadilly Circus nýlega og farið þar í síma? Það er lærdómsríkt vegna þess að það eru tvö sett af símkerfum hvort fyrir sitt fyrirtækið og það eru mismunandi kort. Það eru mismunandi yfirbyggingar á þessum fyrirtækjum. Halda menn að þetta kosti ekki neitt? Halda menn að samkeppnin kosti ekki neitt, að hún sé bara ókeypis? Halda menn að það kosti ekki neitt að reisa endalausar eftirlitsstofnanir til að hafa síðan eftirlit með því hvort samkeppnin virki og sé sem skyldi? Þetta er þáttur sem menn horfa iðulega fram hjá.

Alla þessa þætti á ég eftir að athuga betur þegar frv. kemur til 2. og 3. umr. í þinginu. En staðreyndin er sú að menn eru enn að lesa texta frv. og greinagerðina með því vegna þess að því var dreift hér í gær. Þetta frv. um að gera grundvallarbreytingu á orkuveitunni norðan lands var kynnt hér í gær og menn ætlast til að það sé samþykkt hér á fáeinum klukkustundum, lagafrv. nánast ólesið. Eina ferðina enn á að afgreiða hér lög með bundið fyrir augun.

Ég virði það hins vegar að sjálfsögðu þegar efnt er til samstarfs við heimamenn. Að sjálfsögðu geri ég það. En það er ekki þar með sagt að menn leggi blessun sína yfir alla hluti.

Ég verð að segja það að í fyrra þegar til kasta Alþingis kom frv. um að einkavæða eða gefa heimild til að hlutafélagavæða vatnsveitur var leitað eftir umsögnum sveitarstjórna víðs vegar um landið og andvaraleysið var fullkomið. Það var fullkomið. Það komu ekki athugasemdir. Það er fyrst núna þegar menn eru farnir að kynna sér afleiðingar einkavæðingar á vatninu að mótmæli eru að vakna. Það skiptir máli að samfélagið gefi sér góðan tíma áður en ráðist er í grundvallarbreytingar á grunnþjónustu, breytingar sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar.

Sá þáttur sem maður hlýtur að staldra við og verja verulegum tíma í að skoða er náttúrlega tengingin við vatnsveituna. Enda þótt um sé að ræða framsal á rekstri, ekki eignarhaldi yfir vatnsveitunum eins og ég skil það, þá er þarna komin æðisterk tenging við einkafyrirtæki sem ég hef miklar efasemdir um og á eftir að gera að umtalsefni, annaðhvort hér í annarri ræðu á eftir og svo sannarlega við 2. og 3. umr. málsins, nema hvort tveggja væri.