Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:04:25 (2663)

2002-12-12 22:04:25# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:04]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hér handan við götuna, handan við Vonarstrætið, eru flokksbræður hv. ræðumanns þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að orkufyrirtæki reki ljósleiðara og stundi fjarskiptastarfsemi. Þar er fyrirtæki sem gefið hefur slíkt fordæmi og þess vegna er undarlegt að heyra hv. þm. tala um að í þessu frv. séu gefnar of víðtækar heimildir.

Ég tel að farin hafi verið rétt leið þegar lögunum um Landsvirkjun var breytt. Þegar Landsvirkjun fór út í það að reka fjarskiptafyrirtæki var fjallað um það hér á Alþingi og sett um það ákvæði í lögin að Landsvirkjun væri heimilað að stunda slíka starfsemi. Ég er andvígur því að menn fari undir hatti fyrirtækja sem stofnuð eru til að veita þjónustu við raforku, hitaveitu og vatnsveitu, út í fjarskiptastarfsemi nema það sé alveg tilgreint og skýrt í lögum sem um þessi fyrirtæki gilda.

Þegar hv. þm. nálgast vandann um einkaleyfið og einokunina á fyrirtækjum í opinberri eign þannig að telja að þetta rekstrarform, hlutafélagsformið, sé einhver hættuvaldur þá nálgast hann viðfangsefnið á rangan hátt. Hann hefði átt að taka þátt í umræðum fyrir nokkrum vikum í tilefni af skýrslu umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis var einmitt að fjalla um þennan þátt, þegar rekstrarformi fyrirtækja í opinberri eigu væri breytt og þau gerð að sameignarfyrirtækjum eða hlutafélögum, að þá væri nauðsynlegt að huga að því hvernig einokuninni væri háttað og hvaða rétt neytendur þessara fyrirtækja hefðu. Formið sjálft skiptir í raun engu máli heldur staða fyrirtækjanna og staða neytandans gagnvart fyrirtækjunum. Hann mælti með því að sett yrðu sérstök lög um þetta og það var samstaða um það hér í þessum sal þá að þingmenn ættu að beita sérstakri löggjöf til að tryggja stöðu neytendanna gagnvart þessum fyrirtækjum.