Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:08:52 (2665)

2002-12-12 22:08:52# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:08]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Við heyrðum það að hv. þm. telur að það geti fallið undir starfsemi orkufyrirtækja að reka fjarskipti og ljósleiðara og stunda slíka starfsemi. Hann er þá væntanlega sjálfur búinn að skilgreina 3. gr. í þessu frv. með þeim hætti og gott að það liggur fyrir.

Varðandi þetta með gjaldtökuna og annað slíkt er ástæða til að vekja athygli á 6. gr. frv. þar sem segir:

,,Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.``

Síðan segir að gæta skuli almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár en gjaldskráin þurfi opinbera staðfestingu iðnrh. Síðan segir:

,,Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.``

Þannig er nú háttað um starfsemi þessara fyrirtækja. Þau geta ekki ákveðið gjaldskrár sínar, hvorki fyrir rafmagn né heitt vatn og ekki heldur fyrir vatnsveitustarfsemina nema það byggi á lagasjónarmiðum og fái staðfestingu iðnrh. í fyrra tilvikinu. Það á hins vegar ekki við um ljósleiðarann og þá starfsemi. Ef hún er talin falla undir þessi lög, sem mér heyrðist hv. þm. telja, voru engin slík ákvæði um það í þessum lögum. Ég tel að réttarstaða manna þurfi að vera skýr og ljóst hvernig ákvarðanir um þann þátt í starfsemi slíkra fyrirtækja eru teknar og taka þurfi af skarið varðandi það.

Menn standa frammi fyrir því að hvað sem rekstrarforminu líður eru þessi fyrirtæki einokunarfyrirtæki hvert á sínu sviði eins og málum er háttað. Við eigum að huga að þeim ramma en að sjálfsögðu eigum við jafnframt að skapa þessum fyrirtækjum skilyrði til að starfa með því sterkasta formi sem unnt er að skapa þeim. Það er hlutafélagsformið.