Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:10:51 (2666)

2002-12-12 22:10:51# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér erfitt að rökræða þegar maður er kominn á næsta bæ við trúarbrögð. Það er auðvitað þannig þegar ákveðnir menn tala hér um hlutafélög. Manni dettur fyrst í hug orðið trúarbrögð. Það er trú manna að það sé ævinlega og alltaf betra að hafa hlutina í hlutafélagi, eiginlega alveg sama hvað það er. Við því á maður svo sem lítil rök.

Þegar maður biður hins vegar um hin efnislegu rök lið fyrir lið verður oft fátt um svör. Hvað er svona stórkostlega miklu betra við hlutafélag en sameignarfélag? Hvað er það? Ég verð að segja eins og er, að ég hef sárafá rök heyrt sem ég tel haldbær í þeim efnum. Menn hafa ekki sýnt fram á að það séu nein vandkvæði við að reka fyrirtæki eða stofnun sem hreint félagslegt fyrirtæki í eigu sveitarfélags eða annarra slíkra.

Varðandi fjarskipta- eða ljósleiðararekstur er ég fyrst og fremst að vísa til þess, án þess að tjá mig og afstöðu mína mikið til þess, að maður skilur þær röksemdir að fyrir fyrirtæki sem leggur lagnir um hverfi og sveitarfélag og sinnir viðhaldi þeirra, eru ákveðin samlegðaráhrif af því að hafa þetta á einni hendi, rafleiðslurnar, vatnsleiðslurnar, hitaveitupípur og þess vegna fjarskiptastrengi. Það þarf ekki langt nám í verkfræði til að átta sig á þessu. Það er afar heppilegt ef þetta getur allt farið ofan í sama skurðinn. Það var nú stundum sagt um þessi fyrirtæki í gamla daga að þau kæmu alltaf hvert á fætur öðru, fyrst græfi vatnsveitan, svo rafveitan, þá hitaveitan og svo kæmi síminn viku síðar og græfi fjórða skurðinn fyrir símalínur. Væntanlega er hægt að hafa þetta eitthvað skipulagðara og það voru þessi samlegðarrök sem ég var að vísa til. Ég man eftir að hafa heyrt um þau í sambandi við Orkuveitu Reykjavíkur.

Varðandi gjaldskrárnar er það ósköp einfaldlega þannig að ég held að hvergi í lögum sé öðruvísi gengið frá því en þannig að ef um einokun eða einkaleyfisbundna starfsemi er að ræða þá sé eitthvert verðlagseftirlit líka til staðar.