Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:39:39 (2670)

2002-12-12 22:39:39# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það ekki ósmekklegt að líkja þeirri efnahagsstefnu sem rekin var í Sovétríkjunum á stalínstímanum og byggðist á stóriðju, þar sem það eitt sjónarmið var haft í forrúmi að skapa útflutningstekjur og gjaldeyri án þess nokkurn tíma að spyrja um tilkostnaðinn við að skapa gjaldeyrinn og útflutningstekjurnar og íhuga aðra valkosti í stöðunni --- það er ekkert óeðlilegt við að slíkur samanburður sé gerður þegar málið er einangrað við efnahagsstefnuna. Það er ekkert ómálefnalegt að gera það.

Hv. þm. Ágúst Einarsson hefur komið hingað inn á Alþingi og verið mjög málefnalegur. Ég hef ekki verið sammála honum í afstöðu hans, enda erum við í mismunandi stjórnmálaflokkum. En hins vegar harma ég að hv. þm. skuli ekki hafa fylgst með umræðunni hér í kvöld vegna þess að hér hefur verið rætt um kosti og galla hlutafélagsformsins. Hin pólitísku sjónarmið eru mismunandi og menn leggja mismunandi mat á það og það er ekkert við það að athuga. Ég hef reynt að færa rök fyrir því að þetta sé ekki heppilegt form í grundvallarþjónustu samfélagsins og ekki saman að jafna þessari starfsemi og allri annarri markaðsstarfsemi.

Vissulega á hlutafélagsform víða við. Það er útúrsnúningur og rangtúlkun að halda því fram að við séum andvíg hlutafélögum eða fyrirtækjum. Það er af og frá. En þegar um er að ræða grundvallarþjónustu samfélagsins, stoðþjónustu og velferðarþjónustu, þá teljum við einfaldlega að hlutafélagsformið eigi ekki við.