Almannavarnir o.fl.

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:17:30 (2685)

2002-12-12 23:17:30# 128. lþ. 56.1 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[23:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannavarnir, lögreglulögum, lögum um Viðlagatryggingu Íslands, lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og lögum um fjarskipti.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frv. þessu snúa fyrst og fremst að yfirstjórn almannavarna sem til þessa hefur verið í höndum almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins.

Samkvæmt gildandi lögum hefur almannavarnaráð með höndum heildarskipulagningu almannavarna í landinu og stýrir framkvæmdum á þeim þáttum sem undir ríkisvaldið falla á því sviði. Daglegum verkefnum á sviði almannavarna er nú sinnt af Almannavörnum ríkisins þótt ekki sé fjallað um þá stofnun í lögum um almannavarnir. Framkvæmdastjóri almannavarnaráðs stýrir daglegri starfsemi Almannavarna ríkisins. Helstu verkefni stofnunarinnar eru undirbúnings-, uppbyggingar- og eftirlitsstörf á sviði almannavarna auk þess sem starfsmenn stofnunarinnar taka þátt í aðgerðum á hættu- og neyðartímum. Í dag er þessu verkefni sinnt með rekstri skrifstofu þar sem vinna sex starfsmenn en einnig er starfrækt sérstök stjórnstöð eða samhæfingarstöð sem að hluta er mönnuð fulltrúum annarra stofnana og sjálfboðaliðum.

Almannavarnaráð og Almannavarnir ríkisins hafa á undanförnum árum unnið gríðarlega gott starf á sínu sviði. Þetta þekkja menn vel í tengslum við atburði sem upp hafa komið á liðnum árum. Það er hins vegar ávallt þörf á því að huga að því hvort, og þá hvernig, megi gera gott enn betra og er það m.a. markmiðið með þessu frv.

Það sem lagt er til í frv. er að þau verkefni sem nú eru formlega í höndum almannavarnaráðs og sinnt að stórum hluta af Almannavörnum ríkisins eru flutt til embættis ríkislögreglustjóra. Mörg rök mæla með því að flytja þessa starfsemi undir það embætti, m.a. má í því sambandi nefna að ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmrh. en samkvæmt gildandi lögum fara lögreglustjórar með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi. Aðrar röksemdir eru taldar upp í athugasemdum við frv. en þar á meðal má nefna að þessi breyting felur í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna í landinu og styttingu á boðleiðum í almannavarnaástandi og einföldun á stjórnskipulagi almannavarna.

Það sem öðru fremur ýtti undir þessar breytingar var fyrirhugaður flutningur á starfsemi Almannavarna ríkisins og uppsetning sameiginlegrar stjórnstöðvar leitar og björgunar í Skógarhlíð í Reykjavík. Stefnt er að því á næsta ári að opna þar fullkomna björgunarmiðstöð þar sem að munu koma allir þeir aðilar sem sinna leit og björgun í landinu. Þegar er til staðar í Skógarhlíðinni stjórnstöð Neyðarlínunnar, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins en auk þess mun Slysavarnafélagið Landsbjörg flytja starfsemi sína í þetta húsnæði.

Breytingum eins og þessari, sem felur í sér einföldun á skipulagi á neyðarstundu þegar aðgerðir þurfa að vera hraðar, öruggar og markvissar, hefur verið vel tekið af helstu samstarfsaðilum stofnana ráðuneytisins sem starfa á þessu sviði, þar á meðal björgunarsveitunum. Það má einnig segja að sá frábæri árangur sem björgunarsveitirnar náðu á sínum tíma með sameiningu undir hatti Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafi varðað þá leið sem farin er með þessu frv.

Það er auðvitað svo að núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér kosti sem nauðsynlegt er að halda í með einhverjum hætti og er það reynt í þessu frv. Þannig hefur skipun almannavarnaráðs, þar sem sitja stjórnendur allra helstu stofnana sem að málum þurfa að koma í almannavarnaástandi, reynst ákaflega heppileg og nauðsynleg. Reynt er að halda í þennan kost með því að setja á laggirnar samstarfsnefnd um almannavarnir en með því er reynt að tryggja að lykilmenn á sviði almannavarna hafi áfram skýru hlutverki að gegna í almannavörnum. Gert er ráð fyrir því að samstarfsnefnd um almannavarnir verði ríkisstjórninni til ráðgjafar um almannavarnir, fjalli um áhersluatriði í almannavörnum á hverjum tíma og stuðli að samhæfingu í almannavarnaaðgerðum. Jafnframt er ráð fyrir því gert að nefndin verði til taks í almannavarnaástandi og verði þá ríkislögreglustjóra sem og ríkisstjórninni, sem ávallt kemur að málum þegar alvarlegt almannavarnaástand kemur upp, til ráðgjafar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.