2002-12-13 00:20:36# 128. lþ. 56.4 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa til þess sem ég áður sagði að ég tel að það séu ekki rök fyrir því að slá þessi framlög af gagnvart þeim sveitarfélögum sem eru kannski þannig stödd að þau hafa hugsað sér að ráðast einmitt í framkvæmdir á næstu tveim, þrem, fjórum árum, sem hefðu að óbreyttum reglum gefið þeim rétt til þessara greiðslna vegna stofnkostnaðar. Þó að þau verði færri og þeim fari fækkandi þá eru allar ástæður til að ætla að eftir sem áður séu enn einhver sveitarfélög sem þannig er ástatt um og hafa kannski verið í öðrum verkefnum eða ekki haft bolmagn í það á undanförnum árum að ráðast í slíkar framkvæmdir en hyggjast nú gera það. Og þá finnst mér að of harkalega sé að málum staðið að klippa á þetta með svona litlum aðlögunartíma.

Varðandi fólksfækkunarframlögin þá kann vel að vera að þetta sé nú enn ein afleiðing þess hvernig um málin er búið. Í lagatextanum sjálfum er hvergi með neinum beinum hætti vikið að því að heimild sé þar til greiðslu vegna fólksfækkunar. Talað er um íbúafjölda í b-lið 12. gr. eða b-lið e-liðar, að eitt af því sem eigi að meta þegar útgjaldajöfnunarframlögin eru skoðuð sé útgjaldaþörf vegna mismunandi þátta eins og íbúafjölda, fjarlægðar, skólaaksturs o.s.frv. Það vísar ekki í sjálfu sér beint til breytinga. Vel kann að vera að það standist að hafa í reglugerðinni viðmiðun að ef íbúafjöldi er á niðurleið þá megi borga fyrir það sérstaklega. En það verður ekki lesið beint út úr lagatextanum.

Ég hefði því talið langeðlilegast að það væri pósitíf heimild í lagatextanum sjálfum til þess að greiða fólksfækkunarframlög annaðhvort undir sérstökum framlögum eða að það væri þá með beinum hætti tekið inn í textann í lögunum sjálfum þegar kemur að því þar sem fjallað er um útgjaldaframlög, að hluti þeirra gæti verið fólksfækkunarframlög.