2002-12-13 00:25:22# 128. lþ. 56.4 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Þetta frv. er byggt að hluta til á tillögum nefndar sem fékk það hlutverk að endurskoða jöfnunarsjóðskafla tekjustofnalaganna. Hún fékk ekki rýmra hlutverk en það að endurskoða jöfnunarsjóðskaflann.

Í nefndinni voru eftirtalin: Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Gísli S. Einarsson alþingismaður, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Jóhann Sigurjónsson bæjarstjóri, Valgarður Hilmarsson oddviti og Jón Kristjánsson alþingismaður, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Magnús Stefánsson alþingismaður tók við formennsku vorið 2001 þegar Jón Kristjánsson tók við embætti heilbrrh. Starfsmenn nefndarinnar voru skipuð þau Elín Pálsdóttir og Hermann Sæmundsson, deildarstjórar í félmrn., og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt störfuðu Jóhannes Á. Jóhannesson, starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðni Geir Einarsson, starfsmaður jöfnunarsjóðs með nefndinni.

Nefndin skilaði áliti í haust og tillögurnar voru færðar í frumvarpsbúning í félmrn. Auðvitað þarf að setja reglugerð í framhaldi af svona lagasetningu en reglugerðin verður að hafa lagastoð og það hefur hún í þessu frv. Ráðgjafarnefnd stýrir jöfnunarsjóðnum og hún mótar fyrst og fremst þær reglur sem sjóðurinn starfar eftir.

Það er rétt hjá hv. þm. að það er ískyggilegur munur orðinn á launum á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar, það er alveg hárrétt. Það hallar á landsbyggðina í öllum flokkum nema sérfræðingum. Sérfræðingar eru talsvert betur launaðir á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og helgast það væntanlega af því að þeir eru yfirborgaðir á landsbyggðinni, m.a. vegna þess að þá fær landsbyggðin fyrst og fremst framlög úr jöfnunarsjóði, sveitarfélögin á landsbyggðinni fá fyrst og fremst framlög úr jöfnunarsjóði.

Varðandi spítalamálið sem hv. þm. nefndi og bréfið frá bæjarstjóranum á Akureyri munum við að sjálfsögðu svara því fyrir okkar hönd í félmrn. og á réttum vettvangi og raunar hefði sá hluti ræðu hans frekar átt við þegar verið var að ræða hér fyrr í dag frv. til laga um heilbrigðisstofnanir, sem akkúrat tók á þeim þætti samkomulagsins að ríkið yfirtæki 15% hlut sveitarfélaganna í rekstri ákveðinna heilbrigðisstofnana.

En ég vil segja að það er ekki sambærilegt með sjúkrahúsin í Reykjavík og á Akureyri vegna þess að Borgarspítalinn var alfarið byggður upphaflega af Reykjavíkurborg, alfarið byggður og rekinn af Reykjavíkurborg. Eins var með Grensásdeildina, hún var algjörlega byggð af Reykjavíkurborg. Síðan er bætt við Borgarspítalann B-álmu og einhverjar fleiri breytingar gerðar og það var hins vegar með þeirri kostnaðarþátttöku sem þá var á komin, þ.e. 85:15.

Landakot var liður í þessu uppgjöri. Og þó að gjald hafi komið fyrir Landakot þá er ekki hægt að rökleiða af því að þess vegna ætti að koma gjald fyrir FSA eða hlut Akureyrar í FSA.

Hins vegar má náttúrlega benda á það líka að á móti þessu eða á hinn bóginn afhendir ríkið sveitarfélögunum grunnskólann. Sveitarfélögin yfirtaka eignarhlut ríkisins eða eignir ríkisins í grunnskólanum. Og það er út af fyrir sig sjálfsagt miklu hærri upphæð sem til sveitarfélaganna rennur ef það væri fært til verðs heldur en þessi 15% í heilbrigðisstofnunum.

[24:30]

Varðandi afkomu sveitarfélaganna og umræður sem spunnust hjá hv. ræðumanni um það er það mála sannast að tekjustofnanefndin sem skilaði áliti árið 2000 taldi að ríkið skuldaði sveitarfélögunum 4 milljarða. Árið 2003 hafa sveitarfélögin fengið upp í þessa 4 milljarða 5,1 milljarð. Ég gæti sundurliðað það ef þess yrði óskað. Með þeirri leiðréttingu sem sveitarfélögin fá núna eru þau búin að fá 5,1 milljarð á móti þessum 4 milljörðum sem tekjustofnanefndin tiltók á sínum tíma.

Rekstur málaflokka sveitarfélaganna samkvæmt fjárhagsáætlunum ársins í ár er rúm 78% ef ég man rétt, að meðaltali. Ég tek það fram að að sjálfsögðu er þetta meðaltalstala. Hún er miklu hærri hjá sumum sveitarfélögum en einhvers staðar er hún lægri. Þetta er meðaltalið.

Hallinn hjá sveitarfélögunum er ekki verulegur í ár samkvæmt fjárhagsáætlun þeirra. Svo eigum við eftir að sjá hvort þær hafa haldið. Það vitum við ekki fyrr en kemur fram á næsta ár. Því miður héldu fjárhagsáætlanir ársins 2001 ekki og fjarri því. Í staðinn fyrir að sveitarfélögin reiknuðu með að vera með í kringum milljarð í halla en varð hallinn 8 milljarðar.

Varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna er rétt að það komi fram að sem stendur er ekkert sveitarfélag í gjörgæslu. Mörg af þeim sveitarfélögum sem voru illa sett og í miklum erfiðleikum eru komin í prýðilega rekstrarhæft ástand. Sveitarfélögin á Vestfjörðum, sem voru mörg hver mjög skuldsett, eru komin fyrir vind með því að ríkið keypti háu verði hlut þeirra í orkubúinu. Þau kusu að selja það, það var þeirra frjálsa val til þess að saxa á skuldirnar. Reyndar þurfti meira til með Vesturbyggð, meiri aðstoð heldur en andvirði orkubúsins nam. Upp hefur verið settur varasjóður húsnæðismála sem fær það hlutverk að hjálpa þeim við að losa sig úr erfiðleikum vegna félagslega kerfisins. Þau eru ekki búin að gera það enn en það er í farvatninu, bæði aðstoð varasjóðsins við að reka félagslegar leiguíbúðir þar sem þær eru reknar með halla og eins að hjálpa sveitarfélögunum að selja út úr kerfinu innlausnaríbúðir þar sem þau kjósa.

Rarik keypti Rafveitu Sauðárkróks og lagaði þar með stórlega stöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Á Raufarhöfn höfðu flokksmenn hv. þm. hreinan meiri hluta sl. kjörtímabil og stóðu sig ekkert sérstaklega vel við fjármálastjórn. Hins vegar er búið að leysa vanda Raufarhafnar þannig að Raufarhöfn á að vera komin fyrir vind. Svona mætti lengi telja. Að vísu eru sveitarfélög í þröngri stöðu en ekki neitt í þá veru að þau séu í gjörgæslu eða að taka þurfi af þeim fjárráðin. Ég tek það fram að það eru mjög ábyrgir aðilar við stjórn á Raufarhöfn núna.

46 sveitarfélög eru ekki með leyfilegt hámarksútsvar á þessu ári. Það segir mér að þau séu þá a.m.k. ekki í fjárhagskröggum. Hámarksútsvarið er eins og menn þekkja 13,03% en meðalútsvarið 2002 er 12,79%.

Varðandi fólksfækkunarframlögin, sem við tókum upp árið 2000 og þá fékk jöfnunarsjóður 700 millj. kr. í tvígang til að reiða fram fólksfækkunarframlög. Þau eru ekki greidd á þessu ári en hefði svo verið hefði verulegur hluti þeirra orðið að ganga til tveggja sveitarfélaga sem talin eru býsna stöndug, þ.e. Reykjavík og Seltjarnarnes. Í báðum þessum sveitarfélögum fækkar í ár og í engu sveitarfélagi fækkar um fleiri einstaklinga heldur en í Reykjavík. Fólksfækkunarframlagið hefði orðið að renna til þessara sveitarfélaga að töluverðum hluta.