2002-12-13 00:45:53# 128. lþ. 56.5 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:45]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997, með síðari breytingum, frá félmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson, Óskar Pál Óskarsson, Guðjón Bragason, Inga Val Jóhannsson og Garðar Jónsson frá félagsmálaráðuneyti, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Önnu Skúladóttur frá Reykjavíkurborg og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra Akureyrarbæjar.

Með frumvarpinu er lagt til auk smávægilegra breytinga að núgildandi ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu húsaleigubóta verði felld niður og er það í samræmi við viðræður ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum þeirra. Er í staðinn ætlunin að hækka framlag úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skal ráðstafa hluta af því framlagi til sveitarfélaga vegna greiðslu húsaleigubóta samkvæmt nánari reglum sjóðsins og er breyting þess efnis lögð fram í þingmáli 441, þskj. 602, sem við ræddum hér áðan, hæstv. forseti.

Þá er lagt til að heimilt verði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að greiða húsaleigubætur þegar leigjandi þarf að búa tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda.

Við umfjöllun nefndarinnar var skýrlega tekið fram að allar breytingar á lögum eða reglugerðum um húsaleigubætur yrðu gerðar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 4. gr. Í stað orðanna ,,16. hvers greiðslumánaðar`` komi: 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Þetta er sem sagt orðalagsbreyting.

Undir þetta nál. rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Drífa Hjartardóttir, Kristján Pálsson og Pétur H. Blöndal. Undir nál. rita með fyrirvara hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannessdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.