2002-12-13 00:54:21# 128. lþ. 56.5 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:54]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum verið sammála um að hér sé um réttlætismál að ræða. Um það efast enginn. Þau eru mörg réttlætismálin í þessum heimi sem okkur tekst hreinlega ekki að afgreiða öll á þessum vetri á Alþingi.

Ég ætla ekki að gefa nein fyrirheit um að þingmál hv. þingmanna Ástu R. Jóhannesdóttur, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur verði afgreitt á þessu þingi. Ég tel alveg eðlilegt að við förum yfir það. En eins og ég sagði áðan þá verður það engan veginn gert nema í samráði um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og í samráði við sveitarfélögin. Undir þann texta, ég minni á það enn og aftur, undir þann texta ritar hv. þm. að slíkar og þvílíkar breytingar verða ekki gerðar nema í samáði við sveitarfélögin.

Mér er sem ég sæi upplitið á borgarstjórn Reykjavíkur ef hún fengi þennan pakka til viðbótar inn á borð til sín til að borga án þess að nokkuð sé vitað um hvað þetta kostar. Væri ekki rétt að byrja á rannsóknum á því hverju þetta mundi breyta í fjárhagslegu tilliti fyrir sveitarfélögin? Ég held að það sé algjört frumskilyrði. Við hv. þm. getum verið sammála um það enda er það texti sem við vorum sammála um að setja inn í nál.