2002-12-13 00:57:23# 128. lþ. 56.5 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég rita undir nál. félmn. með fyrirvara. Hann er á nokkuð öðrum nótum en sá fyrirvari sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir var að gera grein fyrir. Ég tel þó að full ástæða sé til að skoða stöðu ákveðinna hópa í sambandi við greiðslu húsaleigubóta í núverandi fyrirkomulagi þeirra, þ.e. hjá sveitarfélögunum. Ég held að það hljóti að þurfa að skoða á grundvelli almennra jafnræðissjónarmiða. Hér er um að ræða fjárhagslegt málefni sem hefur áhrif á afkomu fólks með þeim hætti að mismunun gengur auðvitað ekki.

Ef um klára mismunun er að ræða gagnvart almennum bótarétti af þessu tagi verður auðvitað að fara að vönduðum stjórnsýsluháttum og tryggja að menn séu jafnir fyrir lögunum, fyrir því að fá þessar bætur beri þeir þann kostnað sem þarna er verið að mæta að hluta. Þá gilda ósköp einfaldlega um það ýmis almenn ákvæði að mismunun gangi ekki. Þetta verður að vera á almennum grunni. Ég held að það sé einmitt ástæða til að skoða stöðu hópa eins og hér er verið að ræða um, tiltekinna hópa námsmanna, þeirra sem ekki fá inni á stúdentagörðum o.s.frv. og sjálfkrafa öðlast rétt til bótanna þannig, foreldra í þessum aðstæðum o.s.frv. Ég get tekið undir það að þar séu á ferðinni hlutir sem þurfa að skoðast.

En fyrirvari minn tengist þessu ekki beint og þó. Fyrirvari minn er fyrst og fremst til kominn vegna þess, og hann hef ég svo sem áður haft, að ég held að þetta sé ekki rétt fyrirkomulag. Ég var aldrei hrifinn af því að greiðsla húsaleigubóta yrði verkefni sveitarfélaganna. Með þessu er mætt kostnaði fólks vegna þess að það leigir húsnæði og velur sér það búsetuform af einhverjum ástæðum, tímabundið vegna námsdvalar, tímabundinnar atvinnu eða ákveður hreinlega að það ætli að haga lífi sínu þannig að ráðast ekki í að kaupa eða byggja eigið húsnæði, velur sér að vera leigjendur. Menn hafa loksins komist að þeirri niðurstöðu, seint og um síðir, að það sé sanngjarnt að með opinberum hætti, af hálfu ríkis eða sveitarfélaga, sé komið til móts við kostnað þessa fólks með sambærilegum aðgerðum og gert er þegar húsbyggjendur eiga í hlut í gegnum vaxtabótakerfið. Málið snýst um þetta, að mönnum sé ekki mismunað með beinum hætti á grundvelli þess búsetuforms sem þeir velja sér.

[25:00]

Ég held að það sem að lokum vann þessu máli brautargengi hafi verið það að upp voru teknar húsaleigubætur, að við lýði var og hafði lengi verið stuðningur hins opinbera við fólk vegna öflunar íbúðarhúsnæðis á eigin vegum og svo auðvitað líka í gegnum félagslegt húsnæðiskerfi á meðan það var við lýði. Um þetta, þ.e. vaxtabæturnar og þann stuðning, er búið í skattkerfinu og þar ættu húsaleigubæturnar líka að vera að mínu mati. Ég held að þetta ætti að vera eitt samræmt kerfi sem væri í raun og veru hluti af tekjujöfnunarkerfi eða millifærslukerfi hins opinbera og þá væri það best komið á einni hendi hjá ríkinu í skattalögum. Þar hefði ég viljað sjá húsaleigubæturnar vistaðar og þetta vera sem verkefni ríkisins.

Þá væri þetta líka ekki samskiptamál af því tagi sem einmitt hefur orðið tilefni orðaskipa hér, að vegna þess að húsaleigubæturnar séu hjá sveitarfélögunum geti ríkisvaldið eða löggjafinn jafnvel ekki verið að blanda sér í það með aðgerðum eins og að breyta lögum til þess að tryggja að allir standi jafnir gagnvart þessum réttindum, vegna þess að það er þá orðið samskiptamál við sveitarfélögin og þarf jafnvel að semja um fjárhagsleg áhrif slíkra breytinga sérstaklega, sem mér finnst sýna í hnotskurn að þeim hlutum væri betur fyrir komið hjá ríkinu og þar ætti þetta að vera í einum lagabálki eða lagakafla sem fjallaði um opinberan stuðning við almenning í landinu vegna öflunar íbúðarhúsnæðis hvort heldur menn byggðu, keyptu eða leigðu og þetta ætti að vera einn samræmdur bótaflokkur, vaxta- og húsaleigubætur. Ég spái því að að því muni reka fyrr eða síðar að menn sjái að þetta er auðvitað miklu skynsamlegri frágangur á málinu en sá sem menn hafa tekið upp hér.

Auðvitað hefur þetta kerfi þróast og í rétta átt frá því fráleita fyrirkomulagi sem var í byrjun að þetta var valkvætt hjá sveitarfélögum. Sum sveitarfélög greiddu húsaleigubætur en önnur ekki, þannig að menn sættu mismunun á grundvelli þess hvað sveitarstjórnir ákváðu í hverju og einu tilviki sem var auðvitað algerlega fráleit ráðstöfun, sérstaklega vegna þess að ríkið greiddi þá enn hluta af kostnaðinum. Því hefur svo verið breytt. Nú er þetta ekki á því formi lengur en eftir stendur að einstakir hópar geta misst þessi réttindi, mögulega, af ástæðum sem við höfum verið að ræða hér og eftir stendur það líka að þarna getur stofnast misræmi í raun milli þeirrar aðstoðar sem eigendur húsnæðis fá til að auðvelda þeim húsnæðisöflun sína og hinna sem leigja og eru þá háðir greiðslunum frá sveitarfélögunum.

Þetta var fyrirvari minn, herra forseti. Ég ætla ekki að leggjast gegn þessu máli, alls ekki, og styð það í sjálfu sér, en það er með þeim fyrirvara að ég áskil mér rétt til þess að halda þeim skoðunum mínum til haga að betra fyrirkomulag væri að þetta væri allt saman á einum stað og með samræmdum hætti sem hluti af tekjujöfnunarlöggjöfinni í skattkerfinu.