Húsnæðismál

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:03:17 (2739)

2002-12-13 11:03:17# 128. lþ. 57.7 fundur 370. mál: #A húsnæðismál# (niðurfelling skulda) frv. 163/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er verið að opna sambærilegar heimildir til handa Íbúðalánasjóði til að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu þegar félagslegt íbúðarhúsnæði á í hlut, t.d. hjá námsmannasamtökum eða öðrum sambærilegum aðilum, með mjög hliðstæðum hætti og gert var gagnvart sveitarfélögum á sl. ári þar sem Íbúðalánasjóði var heimilt að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu gegn þátttöku annarra kröfuhafa í íbúðum eða þegar þannig stendur á að nauðsynlegt er að fara í aðgerðir til að auðvelda mönnum að standa straum af þeim lánum sem þeir hafa tekið á sig vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Ég tel að hér sé í fyrsta lagi um mjög sanngjarnt ákvæði að ræða, í öðru lagi sé það skynsamleg fjármálaleg ráðstöfun að Íbúðalánasjóður geti gætt og varið hagsmuni sína með þessum hætti og tekið þátt í slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu í stað þess að keyra málin í þrot. Ég tel því að hér sé um mjög skynsamlegt, sanngjarnt og þarft ákvæði að ræða.