Málefni aldraðra

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:12:01 (2745)

2002-12-13 11:12:01# 128. lþ. 57.12 fundur 412. mál: #A málefni aldraðra# (gjald í Framkvæmdasjóð) frv. 150/2002, ÁRJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að greiða atkvæði um hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra vegna sérstaks átaks í uppbyggingu í hjúkrunarmálum. Við í Samfylkingunni styðjum það átak. Aftur á móti teljum við nefskatta vera óréttláta vegna þess að þeir bitna verst á þeim tekjulægstu. Því höfum við lagt fram brtt. við þetta mál þar sem við breytum tekjuviðmiði þeirra sem greiða þennan nefskatt en eins og menn e.t.v. þekkja eru undanþegin þessu gjaldi börn innan 16 ára og aldraðir yfir sjötugt og þeir sem eru á hjúkrunar- eða dvalarheimilum en tekjuviðmiðin hafa staðið í stað eða eru það lág að lífeyrisþegar eingöngu á bótum almannatrygginga greiða þennan skatt. Og ef þeir greiða þennan skatt er verið að taka til baka þær kjarabætur sem er verið að veita þeim með breytingu á almannatryggingalögunum sem er næsta mál á dagskrá hér á eftir. Þá tekur ríkisstjórnin til baka þær kjarabætur sem er verið að veita þeim í næsta máli.

Ég legg til að tekjuviðmiðunin hækki örlítið þannig að bótaþegar á strípuðum bótum almannatrygginga og aðrir þeir sem eru með tekjur sambærilegar þeim verði undanþegnir greiðslu þessa nefskatts.