Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:30:31 (2752)

2002-12-13 11:30:31# 128. lþ. 57.17 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að hv. utanrmn. skuli leggja til að tilskipun nr. 2000/34/EB sem breytir tilskipun nr. 93/104/EB skuli innleidd í íslensk lög. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða vinnutímatilskipunina margnefndu, og satt að segja orðið tímabært að kveðið sé á um lágmarkshvíld ákveðinna starfshópa sem hingað til hefur ekki verið samið um sérstaklega á íslenskum vinnumarkaði. Mig langar að nefna unglæknana sérstaklega í því sambandi, þ.e. læknanema eða læknakandídata í starfi. Eins og allir vita er vinnuálagið á þessu fólki óhóflegt og um það hafa staðið deilur á milli Félags unglækna og síðan við stjórnir Ríkisspítalanna. Ég vona að innleiðing þessarar tilskipunar verði til þess að menn taki sig saman í andlitinu og semji við þennan hóp um að koma á viðunandi vinnulagi og gæta þess að unglæknar fái hæfilegan hvíldartíma við störf sín eins og aðrir hópar á Íslandi.